Nýtt neyðarskýli fyrir unga vímuefnaneytendur | Reykjavíkurborg

Nýtt neyðarskýli fyrir unga vímuefnaneytendur

föstudagur, 16. nóvember 2018

Borgarráð hefur samþykkt að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að ganga til samninga um kaup á húsnæði fyrir neyðarskýli fyrir unga vímuefnaneytendur. Tillagan um kaup á nýju neyðarskýli er ein af fjölmörgum tillögum velferðarráðs frá því í sumar til að styrkja þá sem eru heimilislausir og/eða í vímuefnaneyslu

  • Ráðhús Reykjavíkur.
    Ráðhús Reykjavíkur.

Húsnæðið sem er 216 fm er staðsett að Grandagarði 1 A og er tvílyft. Breytingar verða gerðar á húsnæðinu, meðal annars komið fyrir lyftu á milli hæða. Gert er ráð fyrir að starfsemin hefjist í mars á næsta ári en þangað til verður tímabundin fjölgun plássa í Gistiskýlinu við Lindargötu, til að mæta því markmiði velferðarráðs að ekki þurfi að vísa neinum frá í vetur.

Í neyðarskýlinu, sem er fyrir unga karlmenn í neyslu, verður sólarhringsvakt og er áætlaður rekstrarkostnaður um  115 mkr. á ári.

,,Opnun neyðarskýlis fyrir unga vímuefnaneytendur verður mikilvægur áfangi í að bæta þjónustu við þann hóp borgarbúa. Á næsta ári munum við innleiða endurskoðaða aðgerðaáætlun í málefnum heimilislausra, það er því margt á döfinni í  þessum mikilvæga málaflokki“, segir Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Á fundi borgarráðs var einnig farið yfir undirbúning vegna kaupa á 25 smáhýsum en þau verða staðsett í nokkkrum þyrpingum vestan Elliðaáa.  Áætlað er að framkvæmdum við þau verði einnig lokið í mars á nýju ári.

Auk þess að reka neyðarskýli fyrir konur og karla þjónustar velferðarsvið Reykjavíkurborgar 65 einstaklinga sem eru í virkri neyslu og búa í sérstöku húsnæði á vegum borgarinnar. Vettvangs- og ráðgjafateymi velferðarsviðs annast stuðninginn og mun einnig veita væntanlegum íbúum í smáhýsunum þjónustu.

Reykjavík rekur einnig áfangaheimili eða styrkir slíka starfsemi þar sem eru um 130 pláss auk þess að koma að fjölmörgum verkefnum sem tengjast vímuefnaneytendum í virkri neyslu eða í kjölfar meðferðar.

Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar á árinu 2019, vegna þjónustu við þennan hóp er um 1.2 milljarðar króna.