Nýtt íþróttahús í Grafarvogi á næsta ári

föstudagur, 6. janúar 2017

Nýtt 3.000 fermetra alhliða íþróttahús verður reist við Egilshöll og tekið í notkun í byrjun næsta árs. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Helgi S. Gunnarsson,  forstjóri Regins og Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis skrifuðu í gær undir samkomulag um uppbyggingu, framkvæmd og reksturs hússins.

 • ""
  Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis,Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins
 • ""
  Fjölnismenn eru áhugasamir um uppbyggingu
 • ""
  Gul og glöð
 • ""
  Teikningar skoðaðar af áhuga
 • ""
  Fulltrúar Reykjavíkurborgar og Fjölnis voru viðstaddir undirritun
 • ""
  Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnism, Dagur B Eggertsson,borgarstjóri og Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla

Húsið,sem er fyrst  og fremst hugsað fyrir handknattleik og körfuknattleik auk annarra íþróttagreina verður eign Regins, byggt og rekið á vegum félagsins. Reykjavíkurborg leigir  tíma í hinu nýja húsi fyrir íþróttastarf Fjölnis.

Fjölnir og Reginn gerðu einnig með sér samkomulag um samstarf um rekstur þessa nýja mannvirkis auk annarra rekstrareininga í Egilshöll, en fyrir eru  eldri samningar um knatthús, fimleikahús auk annarrar íþrótta- og félagsaðstöðu.

Við sama tækifæri var skrifað undir samkomulag Reykjavíkurborgar, Borgarholtsskóla og Ungmennafélagsins Fjölnis um afnot Borgarholtsskóla af íþróttamannvirkjum Fjölnis, Egilshallar og Reykjavíkurborgar í Grafarvogi fyrir nemendur og sérstaklega afreksíþróttasvið skólans.
Undir samkomulagið skrifuðu Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, Dagur B Eggertsson,borgarstjóri og Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis

Borgarholtsskóli og Fjölnir gerðu  af þessu tilefni  sérstakan samstarfssamning um aðkomu þjálfara Fjölnis að starfi afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla með það fyrir augum að styrkja tengsl skólans og ungmennafélagsins.