Nýtt íbúðahverfi í Grundarhverfi á Kjalarnesi

Teikning af nýju hverfi á Kjalarnesi.

Íbúum Kjalarness mun fjölga talsvert á komandi árum en umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag að setja í auglýsingu breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis á Kjalarnesi. Felur breytingin í sér uppbyggingu á rúmlega áttatíu íbúðum í par- og raðhúsum auk fjölbýlishúsum. Meðalstærð íbúða er í kringum hundrað fermetrar. Takmarkið með uppbyggingunni er að gera Grundarhverfi sjálfbærara og styðja við verslun og þjónustu á staðnum.

Helstu upplýsingar og tölur

  • Þremur atvinnulóðum samkvæmt gildandi skipulagi er breytt í íbúðalóðir og land Jörfa skipulagt.
  • Um er að ræða tveggja til þriggja hæða fjölbýlishús ásamt tveggja hæða par- og raðhúsum.
  • Heimild er fyrir 81 íbúð á alls 11 lóðum.
  • Heildarbyggingarmagn 8.544 m2 ofanjarðar.
  • Byggingarmagn neðanjarðar 3.653 m2.

Svæðið sem nú er til umfjöllunar er sunnan Brautarholtsvegar. Aðkoma að lóðum er frá Brautarholtsvegi og eru bílastæði á sérlóðum ofanjarðar. Gert er ráð fyrir að börn í hverfinu gangi í Klébergsskóla og leikskólann Berg. Grænn geiri er sunnan skipulagssvæðis og tengir nýtt dvalar- og leiksvæði við opin svæði. Gert er ráð fyrir nýju opnu leiksvæði á borgarlandi og við leiksvæðið skal gera ráð fyrir að hægt sé að setjast niður.

Möguleikar eru á frekari stækkun byggðarinnar síðar með 2. og 3. áfanga eftir að búið er að flytja Brautarholtsveg.

Tillagan bíður staðfestingar borgarráðs og fer að því loknu í auglýsingu og hefðbundið kynningarferli.

Nýtt íbúðahverfi á Kjalarnesi