Nýsköpun fyrir fólk

Mynd af Norðurljósum og Lógó Reykjavíkur og Nýsköpunarviku.

Nýsköpun fyrir fólk er heiti málþings Reykjavíkurborgar í Nýsköpunarviku, en það verður haldið fimmtudaginn 25. maí kl. 9 – 11 í Grósku.  Markmiðið er að gefa innsýn í þróun sem á sér stað í öllum hornum borgarkerfisins undir formerkjum stafrænnar umbreytingar og nýsköpunar. 

- Tækifærin eru ótalmörg til að gera þjónustu borgarinnar ennþá notendamiðaðri, faglegri og skilvirkari með hjálp nýsköpunar og stafrænna lausna. Um leið varpa þessir umbreytingatímar upp siðferðislegum spurningum sem þarft er að eiga samtal um, segir í kynningu fyrir málþingið.

Málþingið er öllum opið og þeim að kostnaðarlausu.

Leiðir til að gera þjónustuna skilvirkari  

Arnar Sigurðsson stofnandi East of Moon og frumkvöðull í samfélagslegri nýsköpun heldur opnunarerindi um réttinn til að gera mistök. Þar á eftir verða flutt fimm örerindi frá Reykjavíkurborg þar sem farið verður yfir hvert borgin stefnir í nýsköpunarmálum og hvaða aðferðarfræði er beitt í notendamiðaðri hönnun verkefna. Tekin verða dæmi um verkefni sem miða að því að gera þjónustu borgarinnar skilvirkari, auka gæði velferðarþjónustunnar, umbreyta til góðs fyrir skólasamfélagið og skoða hvaða siðferðislegu ábyrgð við berum í stafrænni þróun.

Málþinginu lýkur með pallborðsumræðum um tækifæri og áskoranir sem felast í nýsköpun og stafrænni þróun hjá Reykjavíkurborg. Þátttakendur í pallborði eru Kristinn Jón Ólafsson, formaður stafræns ráðs Reykjavíkurborgar, Arnar Sigurðsson, samfélagslegur frumkvöðull, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, baráttukona fyrir bættu aðgengi í stafrænum heimi og handhafi aðgengisviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2022 og Ásta Þöll Gylfadóttir, teymisstjóri stafrænna leiðtoga hjá Reykjavíkurborg.

Viðburðurinn er hluti af opnum fundum stafræns ráðs. Vigdís Hafliðadóttir, heimspekingur, söngkona, uppistandari með meiru verður fundarstjóri.

Stoltur bakhjarl

Reykjavíkurborg tekur ekki aðeins þátt í Nýsköpunarvikunni heldur er hún einn af bakhjörlunum hátíðarinnar. „Við viljum leggja okkar af mörkum til að bæta aðgengi og sýnileika nýsköpunar,“ segir Hulda Hallgrímsdóttir í atvinnu- og borgarþróunarteymi Reykjavíkurborgar. „Okkur finnst mikilvægt að nýta möguleg tækifæri sem bjóðast í tengslum við hátíðarhöldin sem styðja við innleiðingu nýrrar atvinnu- og nýsköpunarstefnu, efla samtal og þjónustu við atvinnulífið og tryggja fleiri og fjölbreyttari stoðir verðmætasköpunar í borginni.“

Tengt efni: