Nýr meirihluti í borginni kynntur við Breiðholtslaug

Stjórnsýsla

""

Nýr meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG var kynntur við Breiðholtslaug kl. 10.30 í morgun en það voru oddvitar flokkanna, Dagur B. Eggertsson, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Líf Magneudóttir sem kynntu samstarfssáttmálann sem flokkarnir hafa gert með sér fyrir komandi kjörtímabil.    

Samkvæmt tilkynningu frá meirihlutanum kemur fram að umhverfismál, jafnréttismál, lýðræði, samfélag fyrir alla, þjónusta borgarinnar, húsnæðismál og borgarlína verði meginatriði hjá nýjum meirihluta.

Farið var yfir helstu atriði samstarfssáttmála flokkanna en í upphafsorðum sáttmálans segir:

„Við sem myndum meirihluta borgarstjórnar höfum sammælst um að gera góða borg betri. Við ætlum að byggja öflugt og þétt borgarlíf fyrir okkur öll með nægu framboði af húsnæði, sjálfbærum hverfum, heilnæmu umhverfi, skilvirkum samgöngum, fjölbreyttu atvinnulífi og einfaldri, aðgengilegri og lýðræðislegri umsýslu. Við ætlum að auka lífsgæði fólks og búa til borg þar sem það er gott að vera og gera. Við sem myndum meirihluta borgarstjórnar á kjörtímabilinu spönnum breitt pólitískt litróf. Við höfum fjölbreytta sýn og ólíkar áherslur en það sem sameinar okkur eru hagsmunir og lífsgæði borgarbúa og skynsamleg uppbygging Reykjavíkur til framtíðar. Að því marki stefnum við í þessum sáttmála.“

Þá var greint frá verkaskiptingu og formennsku í helstu ráðum og nefndum:

Borgarstjóri: Dagur B. Eggertsson

Formaður borgarráðs: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Forseti borgarstjórnar: Dóra Björt Guðjónsdóttir fyrsta árið en Pawel Bartoszek tekur svo við

Umhverfis- og heilbrigðisráð: Líf Magneudóttir

Formaður Mannréttinda- og lýðræðisráðs: Dóra Björt Guðjónsdóttir

Skóla- og frístundaráð: Skúli Helgason

Velferðarráð: Heiða Björg Hilmisdóttir

Skipulags- og samgönguráð: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

Menningar- og íþróttaráð: Pawel Bartoszek fyrsta árið en Hjálmar Sveinsson tekur svo við

Ný borgarstjórn tekur við á borgarstjórnarfundi sem haldinn verður 19. júní næstkomandi.

Meirihlutasáttmálinn