Nýr íbúðakjarni í Kambavaði | Reykjavíkurborg

Nýr íbúðakjarni í Kambavaði

föstudagur, 20. apríl 2018

Nýr íbúðakjarni í Kambavaði  í Norðlingaholti var formlega afhentur velferðarsviði í dag en kjarninn er sérhannaður fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir.

 • Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ásamt Margeiri Þór Haukssyni sem verður fyrsti íbúinn í nýjum búsetukjarna.
  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ásamt Margeiri Þór Haukssyni sem verður fyrsti íbúinn í nýjum búsetukjarna við Kambavað.
 • Fólk fyrir utan nýjan búsetukjarna í Kambavaði í Norðlingaholti.
  Frá vinstri. Þórarinn Magnússon ráðgjafi fyrir Félagsbústaði, Þórir Kjartansson verkstjóri hjá Félagsbústöðum, Birgir Ottóson forstöðumaður Þjónustu- og samskiptasviðs Félagssbústaða, Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Ilmur Kristjánsdóttir varaformaður velferðarráðs og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við inngang nýja búsetukjarnans.
 • Baðaðstaða er góð í húsinu.
  Baðaðstaða er góð í húsinu.
 • Margeir í íbúð sinni ásamt gestum.
  Margeir í íbúð sinni ásamt góðum gestum. Margeir Þór Hauksson, móðir hans Jóhanna Margeirsdóttir, Birgir Freyr Birgisson forstöðumaður íbúðakjarnans, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalbjörg Traustadóttir hjá velferðarsviði.
 • Hleðslustöðvar eru fyrir rafbíla íbúa og starfsmenn íbúðakjarnans.
  Nútímalegt bílastæði. Hleðslustöðvar eru fyrir rafbíla íbúa og starfsmenn íbúðakjarnans.
 • Flott hönnun og góð birta.
  Flott hönnun og góð birta.
 • Sex íbúðir eru í kjarnanum og nauðsynleg aðstaða fyrir íbúa og starfsmenn.
  Sex íbúðir eru í kjarnanum og nauðsynleg aðstaða fyrir íbúa og starfsmenn en um tuttugu starfsmenn munu vinna við Kjarnann að staðaldri.

Í Kambavaði eru sex íbúðir, sérhannaðar að þörfum íbúa. Þjónustan er einstaklingsmiðuð og sveigjanleg með það að markmiði  að styðja íbúa til þess að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf á sínum eigin forsendum til samræmis við stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum.  Íbúðirnar eru rúmgóðar, með sérpalli og góðum sameiginlegum garði.

Rekstur íbúðakjarnans er samstarfsverkefni Félagsbústaða og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þar sem Félagsbústaðir sjá um fasteignina en velferðarsvið um þjónustu við íbúana.

Starfsmenn í Kambavaði verða um tuttugu en starfsemi og þjónusta hússins er mönnuð allan sólarhringinn alla daga ársins. 

100 íbúðir fyrir fatlað fólk fyrir árslok 2019

Félagsbústaðir sáu um byggingu íbúðakjarnans en verkfræðingar, arkitektar og sérfræðingar velferðarsviðs í málefnum fatlaðs fólks  unnu saman að hönnuninni með þarfir íbúanna í huga. Arkitekt og teymisstjóri verkefnisins er Gunnar Bogi Borgarsson. Flotgólf verktakar byggðu íbúðakjarnann en framkvæmdir hófust í febrúar árið 2017. Það hefur því einungis tekið tæpa 14 mánuði að byggja hann. 

Með áframhaldandi samstarfi Félagsbústaða og velferðarsviðs verður fljótlega opnaður fullbúinn íbúðakjarni við Austurbrún og síðar í sumar í Einholti. Í undirbúningi er uppbygging á þremur nýjum íbúðakjörnum sem verða við Árland og Stjörnugróf í Fossvogi og við Rökkvatjörn í Grafarholti.  Undirbúningur þessara íbúðakjarna er mis langt á veg kominn en gert er ráð fyrir að framkvæmdir við þá geti hafist með haustinu. Stefnt er að því að búið verði að byggja a.m.k. hundrað íbúðir sérstaklega fyrir fatlað fólk fyrir árslok 2019.