Nýr Dalskóli mætir þörfum samfélagsins í Úlfarsárdal

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók síðdegis í gær, ásamt skólabörnum úr Dalskóla og íbúum í Úlfarsárdal, fyrstu skóflustungur að nýjum Dalskóla. Skólinn verður samþættur leik- og grunnskóli ásamt frístundaheimili í Úlfarsárdal.

Skóflustungan markar einnig upphaf framkvæmda við menningarmiðstöð, almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttamiðstöð, sem nýtast mun íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal. Heildarflatarmál mannvirkjanna verður um 15.500 fermetrar.

Sumarið var nýtt fyrir nauðsynlegar undirbúningsframkvæmdir, en færa þurfti til lagnir vegna nýrrar staðsetningar skólans.  Jarðvegsframkvæmdir vegna skólabyggingarinnar hófust í morgun af fullum krafti.

Læsi, félagsleg virkni, sköpun og útikennsla

Fyrsta byggingin sem mun rísa er leikskóli sem tekinn verður í notkun að ári og fyrst um sinn nýtt fyrir grunnskólastarf.  Skólabyggingunni allri verður lokið haustið 2019. Hún verður hluti af tveggja hæða hárri byggingu sem mun liggja meðfram Úlfarsbraut. Innangengt verður úr skólanum yfir í menningarmiðstöð, almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttahús.

Dalskóli fagnar um þessar mundir fimm ára afmæli og markaði skóflustungan upphaf þriggja daga afmælishátíðar. Skólinn starfar nú í nýlegu skólahúsi sem upphaflega var hannað sem leikskóli, en vegna barnafjölda í hverfinu er hluti skólastarfsins í færanlegum húsum. Hornsteinar skólans eru læsi og lesskilningur, virkni og félagsleg þátttaka barna, útikennsla, sköpun og listir, tónlist og söngur, gleði og metnaður.

Almenningsrýmin verða samnýtt

Íþróttavellir eru þegar tilbúnir á flötunum við Úlfarsá og einnig hefur verið gerð búningsaðstaða til bráðabirgða, en íþróttafélagið Fram er með starfsemi í dalnum. Nýtt íþróttahús verður hluti af þessum nýbyggingum Reykjavíkurborgar og hefjast framkvæmdir við það vorið 2017 og áætlað að þeim verði  lokið sumarið 2019. 

Menningarmiðstöð, almenningsbókasafn og sundlaug verða fyrir miðju nýbyggingarinnar. Áætlað er að framkvæmdum við menningarhús og innisundlaug verði lokið 2021 og útisundlaug og heitir pottar árið 2022.

Almenningsrými munu nýtast annarri starfsemi og verða innkomuleið í skólann, sem og í íþróttahúsið.  Samnýting og samlegðaráhrif voru höfð að leiðarljósi við hönnun mannvirkjanna.

Heildarkostnaður við allar nýbyggingar Reykjavíkurborgar í Úlfarsárdal er áætlaður um 10 milljarðar og er stærsta einstaka framkvæmd borgarinnar á næstu árum.

Tengt efni: