Nýjar stúdentaíbúðir við Háskólann í Reykjavík

fimmtudagur, 18. maí 2017

Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist við byggingu 112 stúdentaíbúða í fyrsta áfanga Háskólagarða Háskólans í Reykjavík í haust og að íbúðirnar verði tilbúnar sumarið 2019, samkvæmt samkomulagi sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, hafa skrifað undir.

  • Ari Kristinn Jónsson, rektor HR og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri skrifuðu undir samkomulagið
    Ari Kristinn Jónsson, rektor HR og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri skrifuðu undir samkomulagið
  • Yfirlitsmynd yfir háskólagarðana nýju. Gert er ráð fyrir 390 íbúðum samkvæmt deiliskipulagi
    Yfirlitsmynd yfir háskólagarðana nýju. Gert er ráð fyrir 390 íbúðum samkvæmt deiliskipulagi
  • Ásýnd háskólagarðanna samkvæmt teikningu Kanon arkitekta
    Ásýnd háskólagarðanna samkvæmt teikningu Kanon arkitekta

Íbúðirnar verða byggðar á grundvelli stofnframlags frá Íbúðalánasjóði og Reykjavíkurborg, sem er liður í aðgerðum borgarinnar og ríkisins til að auðvelda og hraða uppbyggingu hentugs húsnæðis fyrir stúdenta.

Í nýju deiliskipulagi á lóð HR við Öskjuhlíð er nú gert ráð fyrir byggingu 390 íbúða í stað 350 áður. Íbúðunum er ætlað að bæta úr brýnni þörf nemenda HR á íbúðarhúsnæði. Hluti íbúðanna mun einnig nýtast til leigu og tímabundinnar búsetu fyrir starfsfólk HR og starfsfólk fyrirtækja sem starfa innan HR og önnur þekkingarfyrirtæki sem tengjast háskólanum.