Nýjar samræmdar úrgangsmerkingar teknar í notkun

Umhverfi

""

Reykjavíkurborg hefur tekið í notkun nýjar samræmdar úrgangsmerkingar. Tilgangurinn með samræmdum merkingum er að gera flokkun úrgangs einfaldari og markvissari. Fyrsta grenndarstöðin til að vera merkt með þessum hætti er ný djúpgámastöð við gatnamót Laugalækjar og Hrísateigs.

Reynsla af notkun merkinganna verður höfð til hliðsjónar við frekari ákvarðanatöku um merkingar á grenndarstöðvum og sorpílátum í borginni.

Á grenndarstöðinni geta íbúar í hverfinu losað sig við pappír, plast, gler auk málma, auk þess sem þar eru gámar frá Rauða Krossinum fyrir föt og klæði og Grænum skátum fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir.

Við merkingar djúpgámanna var notast við nýja íslenska útgáfu af samræmdum norrænum úrgangsmerkingum sem FENÚR (Fagráð um endurnýtingu og úrgang) hefur unnið að með styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Merkingakerfið byggir á litum og táknum fyrir úrgangsflokkana auk texta og á því að vera einfalt og skýrt í notkun. 

Djúpgámastöðin var sett upp sem hluti af endurnýjun gatnamótanna á vegum Reykjavíkurborgar og Veitna.

Líka notað í tilraunaverkefni í Árbæ

Reykjavíkurborg notar einnig nýju merkingarnar í tilraunaverkefni um sérsöfnun glers og málma sem var að hefjast í Árbæ.

Kerfið er sveigjanlegt og er auðvelt að aðlaga merkingarnar að þeirri söfnun sem er til staðar. Merkingakerfið er einnig hagkvæmt þar sem merkingarnar eru tilbúnar til notkunar fyrir hvern þann sem þarf á þeim að halda.

Upplýsingar til notenda alls staðar eins

Fyrir utan það að víðtæk notkun á samræmdum merkingum stuðli að betri og einfaldari flokkun úrgangsefna er tilgangur þessara norrænu merkinga einnig að upplýsingar til notenda séu alls staðar eins þrátt fyrir að söfnun úrgangs á hverjum stað geti verið breytileg.

Merkingarnar eru aðgengilegar og gjaldfrjálsar fyrir alla helstu úrgangsflokka á heimasíðu FENÚR, fenur.is. Framleiðendur og innflytjendur geta sett rétt merki á umbúðir sem þeir selja neytendum og þannig einfaldað og bætt flokkun umbúða.

Skoða merkingarnar í pdf-skjali á vef FENÚR.