Nýjar reglur um ráðningar æðstu stjórnenda

Stjórnsýsla

""

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag nýjar reglur um ráðningar í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg.

Tilgangur reglnanna er að tryggja að val á æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar ráðist ætíð af hæfni umsækjenda og grundvallist á ráðningarerli þar sem gagnsæi og jafnræði er haft að leiðarljósi.

Samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar hefur borgarráð það hlutverk að ráða starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður og veita þeim lausn frá störfum.

Áður en störf æðstu stjórnenda eru auglýst skal borgarráð samþykkja tillögu að auglýsingu um starfið, ráðningaferil og hæfnisnefnd.  

Nýju reglurnar kveða m.a. á um að borgarráð skipi að minnsta kosti þriggja manna hæfnisnefnd með einum utanaðkomandi aðila a.m.k. sem verður ráðgefandi þegar ráðið er í æðstu stjórnunarstöður borgarinnar.

,,Hér er búið að formgera betur ferlið í kringum ráðningar æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar með gagnsæi að leiðarljósi til að auka traust á ferlinu, efla eftirlitshlutverk borgarráðs og tryggja óhæði hæfnismatsnefndanna. Brátt verður svo gefin út gæðahandbók um almennar ráðningar hjá Reykjavíkurborg, sem mun styðja enn frekar við fagleg vinnubrögð við ráðningar,” segir Dóra Björt Guðjónsdóttir forseti borgarstjórnar og formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.

Að fenginni skýrslu hæfnisnefndar er lögð fram tillaga í borgarráði um ráðningu í starfið sem borgarráð þarf að samþykkja. Öll gögn málsins skulu vera aðgengileg borgarráðsfulltrúum á sama tíma og önnur gögn sem lögð eru fram til afgreiðslu á fundum borgarráðs.

Að öðru leyti eru reglurnar svipaðar eldri reglum um ráðningar þar sem kveðið er á um auglýsingar í fjölmiðlum og á vef Reykjavíkurborgar, rúman umsóknarfrest, jafnréttissjónarmið, menntunar- og hæfnisviðmið auk þess sem tilgreint er að listi yfir umsækjendur skuli birtur opinberlega innan þriggja sólarhringa.