Nýir hjólastígar fyrir tæpan milljarð

Samgöngur Umhverfi

""

Nýir og glæsilegir hjólastígar verða lagðir í borginni á þessu ári og munu kosta tæpan milljarð.

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við gerð nýrra hjólastíga á nokkrum stöðum í borginni. Kostnaðaráætlun er 960 milljónir króna. Ríkið kemur myndarlega að verkefninu í gegnum samgöngusáttmálann og kostar framkvæmdir upp á 570 milljónir króna.

Um er að ræða verkefni sem rúmast innan hjólreiðaáætlunar borgarinnar og samgöngusáttmála. Verkefnin hafa þegar verið samþykkt í skipulags- og samgönguráði.

Sérstakir hjólastígar eru með tveimur akreinum fyrir reiðhjól og rafskutlur og eru aðgreindir frá umferð gangandi og akandi þar sem því verður við komið.

Verkefni ársins í ár sem heyra undir hjólreiðaáætlun eru eftirfarandi:

  • Rafstöðvavegur
  • Hæðargarður
  • Háaleitisbraut (Bústaðavegur-Fossvogur),
  • Hjólastæði, hjólateljarar og fræðsla ásamt eftirstöðvum verkefna frá fyrra ári. Þá verður unnið að undirbúningi og forhönnun vegna verkefna næsta árs.

Verkefni samgöngusáttmála eru:

  • Eiðsgrandi (Boðagrandi - Hringbraut)
  •  Bústaðavegur (Veðurstofuvegur-Litluhlíð)
  • Bústaðavegur 151-153 ásamt undirgöngum
  • Bústaðavegur (brú yfir Kringlumýrarbraut).

Samkvæmt kostnaðaráætlun munu þessi verkefni kosta 960 milljónir króna. Þar af eru verkefni hjólreiðaáætlunar 390 milljónir króna og verkefni samgöngusáttmála 570 milljónir króna.

 

Hjólaborgin Reykjavík

Samgöngusáttmálinn