Ný menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030

""

Ný menntastefna til ársins 2030 undir yfirskriftinni „Látum draumana rætast“ var samþykkt samhljóða í borgarstjórn í gær.

Stefnan er afrakstur samstarfs þúsunda borgarbúa með aðkomu barna í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi, kennurum, stjórnendum, foreldrum, kjörinna fulltrúa ásamt innlendum og erlendum ráðgjöfum. Með stefnunni er lagður grunnur að framsæknu skóla- og frístundastarfi sem byggir á styrkleikum samfélagsins. Þá verða veittar 200 milljónir króna í nýjan þróunarsjóð til að hefja innleiðingu menntastefnunnar strax á næsta ári.

Stefnunni er skipt upp í fimm grundvallarþætti. Félagsfærni, sjálfsefling, læsi, sköpun og heilbrigði.

Meginmarkmið stefnunnar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs. Unnið verður að því að öll börn öðlist sterka sjálfsmynd, trúi á eigin getu og nái árangri.  Þá er áhersla á að börn lesi sér til gagns og gamans, afli sér þekkingar og öðlist skilning á samfélagi og náttúru. Lagt er upp úr því að börn sýni frumkvæði, tileinki sér skapandi og gagnrýna hugsun og heilbrigðan lífsstíl.

Menntastefnunni fylgja tíu almennar aðgerðir sem ætlað er að fylgja stefnunni eftir og lúta m.a. að því að auka vægi náttúruvísinda, stærðfræði og útináms;efla list- og verknám; einfalda stoðþjónustu við börn með sérstakar þarfir, bæta aðstöðu, innleiða heildstætt stafræna tækni í skóla- og frístundastarfi og stofna þróunarsjóð til að fylgja eftir innleiðingu stefnunnar. 

Tilgangur Menntastefnu er að ná víðtækri samstöðu um framtíðaráherslur í skóla- og frístundastarfi í Reykjavík og skerpa forgangsröðun mikilvægustu umbótaverkefna.  Fyrst og fremst var horft á börnin, þarfir þeirra og velferð í nútíð og framtíð en um leið valdeflingu starfsfólks og aukna fagmennsku  í skóla- og frístundstarfi. Þá byggir stefnan á grunngildum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að menntun barns skuli beinast að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess. Tilgangurinn  er að búa börn undir að lifa  ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, gagnkvæmrar virðingar, mannréttinda og vinsemdar. Ríkur samhljómur er með menntastefnunni, aðalnámskrám leikskóla- og grunnskóla og núgildandi stefnum skóla- og frístundasviðs og Reykjavíkurborgar.

Næstu skref verða að innleiða stefnuna í nánu samráði við skólasamfélagið. Þá verður Menntastefnan lögð fram í borgarstjórn á morgun til formlegrar afgreiðslu.

Menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030