Ný ferðamálastefna Reykjavíkurborgar samþykkt

Mannlíf Menning og listir

""

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær, 20. október 2020, ferðamálastefnu borgarinnar til næstu fimm ára, 2020-2025. 

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær, 20. október 2020, ferðamálastefnu borgarinnar til næstu fimm ára.

Ferðamálastefnunni er ætlað „að vera leiðarljós Reykjavíkurborgar í því hvernig hún hyggst þróast áfram sem áfangastaður ferðamanna, mæta þörfum ferðaþjónustu og íbúa og vera borg sem hefur aðdráttarafl og auðgar líf íbúa jafnt sem innlendra og erlendra gesta“.

Borgarfulltrúarnir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Hjálmar Sveinsson skipuðu stýrihóp stefnunnar. „Við þurfum að sjá fram úr kófinu og vera tilbúin þegar ferðamennirnir fara aftur á stjá,“ segir Þórdís Lóa, formaður borgarráðs sem jafnframt leiddi vinnu stýrihópsins. „Þess vegna er svo mikilvægt núna að samþykkja ferðamálastefnuna svo við látum ekki vaxandi fjölda ferðamanna koma okkur aftur að óvörum. Við þurfum að vera undirbúin og vita hvers konar Reykjavík við viljum kynna fyrir gestum í góðri sátt við borgarbúa“.

Í stefnunni eru lögð fram þrjú meginmarkmið. Í fyrsta lagi að draga skuli fram að í sérstöðu áfangastaðarins felist allt í senn lifandi og framsækin borgarmenning, frjótt listalíf, þekkingarsköpun, fjölbreytt hágæðaþjónusta og tækifæri til útivistar, ásamt einstakri náttúru í og við borgina.

Í öðru lagi er markmiðið að áframhaldandi uppbygging og þróun ferðaþjónustu borgarinnar sé sjálfbær og að hún þróist í sátt við íbúa, atvinnulíf, umhverfi og menningu.

Og í þriðja lagi snýst síðasta meginmarkmið stefnunnar um það að einfalda og samræma stjórnkerfið auk þess að stuðla að nýsköpun og nýtingu stafrænna lausna til upplýsingamiðlunar til ferðamanna á meðan þeir dvelja í borginni. 

Vinna við nýja stefnu hófst árið 2018 og fól í sér stöðugreiningu og djúpviðtöl við helstu hagsmunaaðila, vinnustofur og opna vinnufundi með fulltrúum sveitarfélaga og ferðaþjónustu ásamt íbúum borgarinnar. Síðar fóru drög að stefnunni í opið umsagnarferli og var tekið tillit til ýmissa athugasemda sem þar komu frarm. Leiðarljósið við mótun stefnunnar var að halda jafnvægi á milli þarfa ferðaþjónustunnar og sjónarmiða og þarfa íbúa borgarinnar.

Ferðmálastefna Reykjavíkurborgar 2020 - 2025