Ný ferðamálastefna Reykjavíkurborgar í umsagnarferli

Atvinnumál Mannlíf

""

Drög að nýrri ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar eru nú komin í umsagnarferli og er hægt að senda inn umsagnir til 23. september í gegnum vef Reykjavíkurborgar. Öllum er frjálst að senda inn athugasemdir.

Vinna við stefnumótunina hófst formlega í október 2018 þegar borgarráð skipaði þrjá borgarfulltrúa í stýrihóp yfir verkefninu, þau Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, sem jafnframt er formaður hópsins, Valgerði Sigurðardóttur og Hjálmar Sveinsson. Í framhaldinu var vinnunni ýtt úr vör með fundi með borgarfulltrúum.

Áður hafði verið gerð viðamikil greining á verkefnum málaflokksins innan borgarinnar og sjónarmiða leitað hjá íbúum, fulltrúum ferðaþjónustu, nágrannasveitarfélaga og fleirum, með fundum og viðtölum.

Í stefnunni verður leitast við að mæta nokkrum megináskorunum, svo sem að uppbygging innviða haldist í hendur við þróun borgarinnar sem áfangastaðar ferðamanna, að sátt haldist milli þarfa íbúa og ferðaþjónustu, að aukin festa verði í markaðsmálum og að skerpt verði á sýninni um Reykjavík sem áfangastað fyrir ferðamenn.

Að loknu umsagnarferli verður farið yfir athugasemdir og unnið úr þeim en það er endanlega í höndum borgarstjórnar að samþykkja nýja ferðamálastefnu fyrir Reykjavíkurborg. Stefnt er að því að hefja innleiðingu nýrrar stefnu í upphafi næsta árs.

Ný ferðamálastefna