Norðlingaskóli sem staðsettur er í Norðlingaholti í Árbæjarhverfi í Reykjavík er stofnun ársins 2020, í flokknum borg og bær, í könnun Sameykis, stéttarfélags í almannaþjónustu. Í Norðlingaskóla eru nemendur í fyrsta til tíunda bekk og þar starfa yfir hundrað manns.
Í könnuninni sem ákvarðar stofnun ársins er spurt um starfsumhverfi, trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju í starfi, stolt og jafnrétti. Með valinu eru stjórnendur hvattir til að til að gera vel í starfsmannamálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum.
Í flokknum stærri stofnanir með 50 starfsmenn eða fleiri, eru fimm stofnanir valdar sem fyrirmyndarstofnanir og er skóla- og frístundasvið ótvíræður sigurvegari þar. Fyrir valinu urðu auk Norðlingaskóla, frístundamiðstöðvarnar Ársel, Tjörnin og Gufunesbær í 2.-4. sæti og í 5. sæti lenti Laugarnesskóli.
Þegar litið er til stofnanna með færri en 50 starfsmenn voru stofnanir Reykjavíkurborgar í öðru til fimmta sæti, skrifstofa velferðarsviðs, Borgarsögusafn, Listasafn Reykjavíkur og Selásskóli.
Að lokum er vert að minnast á hástökkvara könnunarinnar sem er umhverfis- og skipulagssvið (USK) Reykjavíkurborgar. Þetta er sannarlega glæsilegur árangur hjá starfsstöðvum borgarinnar.