Níu mánaða uppgjör borgarinnar afgreitt í borgarráði

Fjármál

9 mánaða árshlutauppgjör borgarinnar 2023, súlurit yfir rekstrarniðurstöðu

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar-september 2023 var afgreiddur í borgarráði í dag, fimmtudaginn 30. nóvember.

Rekstrarniðurstaða samantekins árshlutareiknings Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var neikvæð um 2,9 milljarða króna en áætlun gerði ráð fyrir að reksturinn yrði jákvæður um 9,9 milljarða sem var 12,8 milljörðum lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Helstu frávik frá áætlun má rekja til fjármagnsliðar eða 8,8 milljarða króna. Skýrist það af hærri verðbólgu á tímabilinu en áætlun gerði ráð fyrir, auk hækkunar vaxta. Önnur helstu frávik voru í hærri launakostnaði A-hluta, hækkun lífeyrisskuldbindingar og minni matsbreytingum fjárfestingaeigna Félagsbústaða. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) skilaði 35,3 milljörðum króna í afgang sem var um 4,1 milljarði undir áætlun en var 9,5 milljörðum betri niðurstaða en á sama tímabili árið 2022. 

Þensla í hagkerfinu og viðvarandi verðbólga hefur það sem af er ári sett mark sitt á rekstur borgarinnar. Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti síðast þann 23. ágúst en hefur á síðustu tveimur vaxtaákvörðunardögum haldið stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%. Verðbólga er áfram mikil og virðist ætla að verða þrálátari en áður var spáð að mati Seðlabanka Íslands, en óvissa hefur aukist sökum jarðhræringa. Hægst hefur á fjölgun starfandi, en atvinnuleysi er áfram lítið. Há verðbólga hefur áhrif á fjármagnslið í rekstri, en á móti kemur að þenslan í hagkerfinu felur í sér hátt atvinnustig, sem skilar hærri útsvarstekjum en áætlað var. 

Skoða má árshlutauppgjörið á síðu Kauphallarinnar.