Níu leikskólar í samstarf um myndlistarnám

Skóli og frístund

""

Elstu leikskólabörnin fá markvissa myndlistarkennslu í Myndlistaskóla Reykjavíkur.  

Níu leikskólar verða næsta vetur í samstarfi við Myndlistaskólann í Reykjavík um myndlistarnám; leikskólarnir Borg, Garðaborg, Geislabaugur, Klettaborg, Múlaborg, Suðurborg, Tjörn, Vesturborg og Vinagerði. Elstu börnin í leikskólunum munu vinna í myndlistarsmiðjum þar sem markmiðið er að styðja við og dýpka enn frekar þá myndlistarkennslu sem fram fer í leikskólanum.

Í myndlistarsmiðjum er kennt í 6-8 barna hópum og er gert ráð fyrir að hver hópur fari sex sinnum í  Myndlistaskólann og vinni undir handleiðslu myndlistarmanna og með leikskólakennurum. Þar verður leitast við að víkka sjóndeildarhring þeirra gegnum sjónræna skynjun og persónulega listræna tjáningu. 

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur gert þriggja ára samstarfssamning við Myndlistaskólann í Reykjavík um myndlistarsmiðjur af þessu tagi sem hafa verið í boði um árabil. Leikskólum sem tekið hafa þátt í þessu samstarfi hefur fjölgað jafnt og þétt og hafa þeir ekki áður verið jafn margir sama veturinn.