Neyðarúrræði fyrir heimilislausar konur verður framlengt

Velferð

""

Í apríl síðastliðnum var sett á fót neyðarúrræði á vegum Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytisins til að koma til móts við þarfir heimilislausra kvenna. Ákvörðunin var tekin sem viðbrögð við Covid-19, enda var ljóst að ekki væri mögulegt að virða tveggja metra regluna í neyðarskýli fyrir heimilislausar konur, Konukoti. Tekin var ákvörðun um að tvískipta hópnum í Konukot og nýja úrræðið, þannig að rýmra yrði fyrir hverja konu.

Neyðarúrræðið sem hér um ræðir er til bráðabirgða. Til stóð að loka því í sumar en tekin hefur verið ákvörðun um að framlengja það, í ljósi þess að enn ríkir óvissa vegna heimsfaraldursins og krafa um tveggja metra regluna í gildi. Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs, var opnun úrræðisins ein af fjölmörgum breytingum á þjónustu velferðarsviðs vegna Covid-19, sem ráðast þurfti í hratt og örugglega. 

Neyðarúrræðið er rekið með fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu og er opið konum alls staðar að af landinu. Velferðarsvið á nú í viðræðum við eiganda hússins um áframhaldandi rekstur til skamms tíma og hefur fengið vilyrði fyrir áframhaldandi fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu. 

„Það er stefna Reykjavíkurborgar að aðstoða þær konur sem búa í athvarfinu að komast í sjálfstæða búsetu og að því er nú unnið hörðum höndum,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs. Á síðastliðnum tveimur árum hefur sextán heimilislausum einstaklingum með miklar og flóknar þjónustuþarfir verið tryggð varanleg búseta. 

Nokkrar breytingar eiga sér nú stað í þjónustu við heimilislausar konur. Meðal annars var nýlega auglýst eftir nýjum rekstraraðila fyrir Konukot. Í fyrra var nýju úrræði fyrir tvígreindar konur, með geðrænan vanda og vímuefnavanda, komið á fót. Þá samþykkti velferðarráð nýverið að setja á laggirnar nýtt áfangaheimili fyrir konur og var því máli vísað áfram til borgarráðs. 

Reykjavíkurborg rekur þrjú neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk; Konukot og gistiskýlin á Lindargötu og Grandagarði. Þar að auki hefur borgin yfir að ráða tugum íbúða og herbergja, þar sem fólk með flókinn og samsettan vanda býr í varanlegri búsetu með miklum stuðningi frá vettvangs- og ráðgjafarteymi velferðarsviðs. Þá er unnið að uppsetningu tuttugu smáhýsa, sem meðal annars munu nýtast konum sem nú eru heimilislausar, kaupum á fleiri íbúðum og styrkingu vettvangs- og ráðgjafarteymis.

Það er mat velferðarsviðs að neyðarúrræðið sem hér um ræðir hafi nýst afar vel. Konurnar sem þar hafa dvalið hafa lýst yfir ánægju með það, líkt og þær segja sjálfar frá í sameiginlegri yfirlýsingu. Að úrræðinu koma auk félagsmálaráðuneytis og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, geðdeild Landspítalans og Rauði krossinn og hefur samstarfið gengið vel. 

Kostnaður vegna neyðarúrræðisins er 9 milljónir króna á mánuði. Í heild ver Reykjavíkurborg 1,1 milljarði á ári í þjónustu við heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir.  

Stefna í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir 2019–2025.