Neyðarstjórn velferðarsviðs virkjuð en reynt að skerða þjónustu sem minnst

Covid-19 Velferð

Neyðarstjórn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hefur verið virkjuð vegna fjölda starfsmanna sem eru í einangrun og sóttkví. Allt kapp er lagt á að skerða þjónustu sem minnst.

Alls eru 64 starfsmenn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í einangrun og 77 í sóttkví vegna Covid-19. Langflestir vinna við umönnun af ýmsu tagi; í heimaþjónustu, búsetukjörnum, gistiskýlum og annarri þjónustu sviðsins. Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur sviðsstjóra er erfið staða á nokkrum heimilum vegna manneklu. Jafnframt má gera ráð fyrir að næstu daga þurfi að forgangsraða þeim sem þurfa mesta umönnun og aðhlynningu af skjólstæðingum heimaþjónustu, ef fram heldur sem horfir.

Að sögn Regínu er nú biðlað til sumarstarfsmanna og tímavinnustarfsfólks auk þess sem auglýst hefur verið eftir starfsfólki í bakvarðasveit velferðarþjónustu. Í síðustu viku þurfti að loka skammtímavistheimili fyrir fötluð börn í nokkra daga en stjórnendur velferðarsviðs leggja áherslu á að halda úti eins órofinni þjónustu og hægt er, miðað við aðstæður.

Á velferðarsviði Reykjavíkurborgar starfa um 3.400 starfsmenn á um 100 starfsstöðum, þar af eru 70 sólarhringsstofnanir.