Nemendaverðlaun veitt fyrir fjölbreytta hæfni

Skóli og frístund

Nemendaverðlaun 2024

Nemendaverðlaun  skóla- og frístundaráðs voru afhent við hátíðlega athöfn í Klettaskóla í gær, mánudaginn 3. júní 2024. Þetta er í tuttugasta og annað sinn sem verðlaunin eru afhent til nemenda í grunnskólum borgarinnar sem skara fram úr í námi og starfi.

Nemendaverðlaun 2024

Alls voru 22 nemendur verðlaunaðir sem þykja skara framúr í námi, félagsfærni, virkni í félagsstarfi eða hafa sýnt frábæra frammistöðu á tilteknu sviði skólastarfs. Í ár voru það nemendur í fjórða til tíunda bekk sem hlutu verðlaun sem sýnir að nemendur á öllum aldri geta skarað fram úr á ýmsum sviðum og verið góðar fyrirmyndir.

Verðlaunahafar fengu bókarverðlaun. Þau yngri fengu bókina Alexander, Daníel, Hermann Dawidsson, Bannað að drepa eftir Gunnar Helgason og Rán Flygenring en hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2023 í flokki barna- og ungmennabóka og var tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2024.

Nemendur í 7.- 10. bekk fengu bókina Hrím eftir Hildi Knútsdóttur sem fékk Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2024 í flokki frumsaminna verka, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka 2023 og hlaut verðlaun bóksala sama ár. Bókin var jafnframt tilnefnd til Barna- og unglingabókmennta Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd. 

Nemendur skólakór Klettaskóla tóku lagið sem viðstaddir gestir tóku undir. Þau sungu lögin Vertu til er vorið kallar á þig og Litlu fluguna sem gerði skemmtilega verðlaunaafhendingu enn betri.