Nemendaþing um heilsu og vellíðan

Skóli og frístund

""

Nemendur Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla og Réttarholtsskóla tóku 7. nóvember sl. þátt í nemendaþingi í sínum skóla. Efni þingsins var svefn og mikilvægi hans sem og áhrif rafrettna og orkudrykkja á ungmenni.

Í skólunum var nemendum skipt niður í aldursblandaða umræðuhópa og nemendur voru áhugasamir um málefnið og virkir í umræðunum.
Nemendaþing er lýðræðislegur vettvangur þar sem allir nemendur hafa rödd og er í samræmi við nýja menntastefnu borgarinnar, „Látum draumana rætast þar sem lagt er upp úr því að börn sýni frumkvæði, tileinki sér skapandi og gagnrýna hugsun og heilbrigðan lífsstíl.

Umræðuefnin á þinginu endurspegla bæði umfjöllunina í samfélaginu og niðurstöður rannsókna sem gefa til kynna að þörf er á forvörnum og fræðslu um svefn, orkudrykki og rafrettur. Fyrir nemendaþingið fengu kennarar skólanna fræðslu og námsefni frá Embætti landlæknis um mikilvægi svefns barna og ungmenna sem tengist Heilsueflandi skólum og Heilsueflandi hverfi.

Áfram verður markvisst unnið innan skólanna með ofangreinda þætti í lífsleiknitímum í vetur samhliða fræðsluefninu frá Embætti landlæknis. Rannsakendur við  Háskólann í Reykjavík munu svo meta árangur verkefnisins.

Nemendaþingið er hluti samstarfsverkefnisins Betri Bústaðir þar sem stofnanir, foreldrafélög grunnskólanna og félagasamtök í Bústaðahverfi taka höndum saman og vinna að heilsueflingu og  forvörnum í hverfinu með áherslu á börn og unglinga.