Námskeið um blágrænar ofanvatnslausnir

Framkvæmdir Skipulagsmál

""

Endurmenntun HÍ heldur námskeið í samstarfi við Reykjavíkurborg, Veitur, Alta og CIRIA um ofanvatnslausnir. Inngangsnámskeiðið er núna í september og framhaldsnámskeiðið í nóvember. Það er æskilegt að allir sem ætla að starfa á þessum vettvangi taki þessi námskeið.

Stefnumörkun um ofanvatnslausnir má finna í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, í  loftslagsstefnu borgarinnar, aðlögun að loftslagsbreytingum og í aðgerðaráætlun um líffræðilegan fjölbreytileika. Þverfaglegur stýrihópur starfsmanna Reykjavíkurborgar og Veitna hefur með höndum að innleiða verkefnið eftir þeirri stefnumörkun.

Hvað eru ofanvatnslausnir?

Ofanvatnslausnir sem oft eru nefndar blágrænar ofanvatnslausnir, einnig eru þær nefndar sjálfbærar ofanvatnslausnir, fela í sér að nýta ofanvatn, regn og snjó á umhverfisvænan og staðbundinn hátt. Slíkar lausnir fela í sér að nýta vatnið innan lóðarinnar t.d. með því að hafa þök með gróðri sem nýta ofanvatnið (svokölluð græn þök), tjarnir, svelgi og regngarða. Markmiðið er að líkja eftir náttúrulegum ferlum vatns eins og það var áður en byggingarframkvæmdir koma til. Notast er við landslagshönnun eins og læki og tjarnir í stað þess að leggja lagnir í jörð. Ofanvatninu er safnað og því leyft að síast í jörðu eins mikið og hægt er. Afgangnum er svo veitt í burtu og ýmsir mengunarvaldar hreinsaðir úr vatninu.

Námskeið hjá Endurmenntun HÍ

Endurmenntun HÍ heldur tvö námskeið á þessu misseri um ofanvatnslausnir. Annað er haldið 24. september en þá verður Sue Illman landslagsarkitekt og frumkvöðull í þessum málaflokki með inngangsnámskeið (Introduction to SuDS) um efnið og fer m.a. í áskoranir og tækifæri í innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna. 27. og 28. nóvember verða Anthony McCloy verkfræðingur og Robert Bray landslagsarkitekt með framhaldsnámskeið (Designing SuDS) en þeir hafa verið hér áður með námskeið. Þessir kennarar hafa allir mikla reynslu af innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í Bretlandi. 

Námskeiðin hjá Endurmenntun eru í samstarfi við Reykjavíkurborg, Veitur, Alta og CIRIA sem eru samtök sem hafa gefið út ítarlegt leiðbeiningar- og hönnunarefni um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í Bretlandi. Á námskeiðunum verður m.a. farið í hönnun mismunandi lausna, grunnforsendur, útreikninga, mengun og öryggismál. Það er æskilegt að allir sem ætla að starfa á þessum vettvangi taki þessi námskeið.

Lykillinn að því að taka upp blágrænar ofanvatnslausnir er þverfaglegt samstarf í skipulags-, fráveitu- og umhverfismálum með aðkomu þeirra sem sjá um græn svæði og með góðri samvinnu við íbúa.

Skráning í Introduction to SuDS foundation

Skráning í Designing SuDS

Námskeið hjá Endurmenntun

reykjavik.is/ofanvatnslausnir