Í umfjöllun Fréttablaðsins um Loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025 í morgun kom fram að nagladekk væru „stikkfrí“ í loftslagsáætlun borgarinnar.
Svifryksmengun vegna nagladekkja er ekki hluti af gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum.
Nagladekk valda hinsvegar svifryki og mengun í nærumhverfi sem talið er að valdi fjölda dauðsfalla hér á landi á hverju ári.
Borgin hefur ítrekað krafist lagaheimildar frá ríkinu til að banna notkun nagladekkja innan borgarinnar en án árangurs. Reykjavík stendur árlega fyrir fræðslu og auglýsingum til að draga úr notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu.
Þá skal það ítrekað að nagladekkjanotkun og svifryk telja ekki inn í loftslagsbókhald og er það einfaldlega ástæðan fyrir því að ekki er minnst á nagladekk í loftslagsáætlun borgarinnar. Hinsvegar er fjallað um mikilvægi þess að draga úr notkun nagladekkja í umhverfis- og auðlindastefnukafla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.