Mun betri staða í ráðningarmálum en í fyrra

Skóli og frístund

""

Samkvæmt yfirliti sem kynnt var í skóla- og frístundaráði í dag er staðan í ráðningarmálum skóla- og frístundastarfs betri en á sama tíma í fyrra. Grunnskólastarf í borginni hefst á morgun eða 22. ágúst.

Þann 20. ágúst var búið að ráða í nær 94% stöðugilda í 62 leikskólum borgarinnar ef miðað er við heildarfjölda stöðugilda í mars 2018, en óráðið er enn í 61, 8 stöðugildi til grunnmönnunar.  

Á sama tíma í fyrra var óráðið í um 120 stöðugildi í leikskólunum.  

Nú er um helmingur leikskóla borgarinnar fullmannaðir, í 17 leikskólum er ómannað í eina til eina og hálfa stöðu, 5 leikskóla vantar starfsfólk í 2-2,63 stöður, 4 leikskóla vantar þrjá starfsmenn og í jafn marga skóla vantar fjóra starfsmenn. Í einum leikskóla er óráðið í fimm stöður.

Staða starfsmannamála hefur þau áhrif að óvíst er með dagsetningar á inntöku 128 barna af þeim um það bil 1.400 sem fengið hafa boð um vistun í haust. Þau bíða eftir að hefja leikskólagöngu í 11 leikskólum þar sem ekki hefur náðst að manna í grunnstöðugildi.   

Á biðlista eftir leikskólaplássi hjá borgarreknum leikskólum þann 18. ágúst 2018 eru 55 börn fædd 2016 og eldri. Umsóknir um leikskólavist fyrir þau börn bárust eftir að innritun fyrir haustið 2018 hófst. Til viðbótar eru 62 börn fædd 2016 og eldri með flutningsumsóknir á milli leikskóla. Alls eru á biðlista 153 börn sem fædd eru í janúar til maí 2017.

Í grunnskólunum 36 er búið að manna rúmlega 98% stöðugilda og óráðið í rösklega 33 stöðugildi. Þar af á eftir að ráða 11 grunnskólakennara, 10 stuðningsfulltrúa 8 skólaliða, 2 þroskaþjálfa, einn starfsmann í mötuneyti og einn starfsmann á skólabókasafn.

Á sama tíma í fyrra átti eftir að manna tæplega 60 stöðugildi í grunnskólunum.

Á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum er ómannað í 103 stöðugildi, þar af um 16 stöðugildi í störfum með fötluðum börnum og ungmennum eða 33 starfsmenn. Yfirleitt er um hálfar stöður að ræða. Alls vantar því um 211 starfsmenn.  

Á sama tíma í fyrra var óráðið í 114 stöðugildi á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum eða 226 starfsmenn.

Ráðningar standa yfir þessa dagana og því er eru tölur í þessu yfirliti að breytast dag frá degi.

Sjá minnisblað sem kynnt var í skóla- og frístundaráði í dag um stöðuna í ráðningarmálum.