Múlaborg hlaut hvatningarverðlaunin Orðsporið

Skóli og frístund

Múlaborg hlýtur Oðrsporið

Á Degi leikskólans sem er í dag, þann 6. febrúar, var leikskólanum Múlaborg veitt Orðsporið 2024. Orðsporið eru hvatningarverðlaun leikskólans sem Múlaborg hlýtur fyrir að vera leikskóli fyrir alla.

Í Múlaborg eru öll börn velkomin og þörfum þeirra er mætt. Þar fá börn, með og án fötlunar, að njóta þess að læra, vinna og vera saman. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, afhenti Kristínu Árnadóttur leikskólastjóra viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í Múlaborg að kennurum og stjórnendum skólans viðstöddum ásamt fulltrúum Orðsporsins.

Framúrskarandi starf varðandi jafnrétti og þróun kennsluhátta

Í umsögn valnefndar um Orðsporið segir að í Múlaborg sé unnið framúrskarandi starf er kemur að jafnrétti í víðu samhengi og þróun kennsluhátta fyrir börn með fatlanir og aðrar sérþarfir. Þá taki leikskólastarf og kennsla mið af hverjum og einum einstakling, kennslurými og kennsluaðferðir eru aðlagaðar að hverju barni fyrir sig með það að leiðarljósi að börnin njóti sín, hvert á sínum forsendum. Þá segir jafnframt að inngilding sé í heiðri höfð, allir skipti máli og enginn verði útundan. Fagleg þekking innan Múlaborgar er mikil og leikskólastarfið byggir á áralangri reynslu fagfólks á öllum sviðum er varða kennslu yngri barna, sérkennslu og aðra nauðsynlega þjálfun – og um leið sérhæfir leikskólinn sig í að sinna sameiginlegu uppeldi fatlaðra og ófatlaðra barna.

Áhersla á að öll fái að njóta barnæskunnar

Leikskólinn Múlaborg hefur verið starfræktur í Reykjavík frá árinu 1975. Leikskólinn leggur áherslu á jafnrétti í víðu samhengi, meðal annars í því að jafna rétt karla og kvenna en líka í því að einstaklingar með og án fötlunar geti fengið að njóta þess að læra, vinna og vera saman. Í leikskólanum liggur fyrir margra ára reynsla og þróun á kennslu barna með fatlanir og er lögð áhersla á að þau fái að njóta barnæsku sinnar eins og önnur börn í leikskóla.