Múlabær hlýtur styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Múlabæ, dagþjálfun fyrir aldraða og öryrkja, styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal í dag.
Meginmarkmið Múlabæjar er að auka lífsgæði eldri borgara og öryrkja sem búa í sjálfstæðri búsetu með því að veita þeim heilbrigðisþjónustu og líkamlega og félagslega virkni.
Gleði og virkni í Múlabæ
Í Múlabæ er heilsugæsla fyrir þá sem þar dvelja, æfingasalur með hinum ýmsu æfingatækjum, stólaleikfimi, sjúkraþjálfun, vinnustofa og listasmiðja ásamt fjölbreyttu félagsstarfi. það er um 60 manns sem nýta sér þjónustuna dag hvern en alls eru um 130 einstaklingar í Múlabæ hverju sinni. Yngsti einstaklingurinn í dagdvölinni er 65 ára og sá elsti er 102 ára en er oft kallaður unglingurinn því viðkomandi er svo ern. Í Múlabæ er lögð áhersla á að öllum líði vel og að fólk hafi gaman að dvölinni um leið og hver og einn efli huga og hönd.
Múlabær hóf starfsemi í janúar 1983 og fagnar því 40 ára starfsafmæli á þessu ári. Borgarstjóri sagði við afhendingu styrksins að Múlabær væri ákaflega vel að þessari viðurkenningu komin fyrir mikilvæga starfsemi sem einkennist af virkni og gleði. Það var Þórunn Bjarney Garðarsdóttir, forstöðumaður í Múlabæ, sem tók við viðurkenningunni og hún sagði við það tækifæri að þó að gleði ríki í bænum mætti það aldrei koma niður á gæðum starfsins sem hún vildi þakka góðu starfsfólki.
Minningarsjóður Gunnars Thoroddsen var stofnaður af hjónunum Bentu og Valgarð Briem 29. desember 1985 og er ætlun þeirra að veita 50 sinnum úr sjóðnum. Tilgangur sjóðsins er að veita styrk til einstaklinga eða hópa, stofnana eða félaga, á sviði mannúðarmála, heilbrigðismála eða menningarmála.
Gunnar Thoroddsen var borgarstjóri í Reykjavík í tólf ár – frá árinu 1947 til ársins 1959 og svo alþingismaður um árabil; ráðherra og loks forsætisráðherra árið 1978.