Móttaka barna hælisleitenda                             

Skóli og frístund

""

Starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar hefur skilað tillögum um bætta móttöku og aðlögun barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í grunnskólum Reykjavíkur.  Tillögur hópsins byggja m.a. á reynslu Norðmanna og annarra Norðurlandaþjóða.

Í tillögum starfshópsins er lagt til að valinn verði skóli sem sérhæfi sig í móttöku og mati á námslegri stöðu barna hælisleitenda. Sérhæfður hópur kennara mun leiða verkefnið og er áætlað að það hefjist haustið 2019.

Hlutverk kennarahópsins felst fyrst og fremst í því að taka á móti börnum á aldrinum 8-15 ára, meta námslega stöðu þeirra og fyrri skólagöngu og aðstoða þau við að læra á íslenskt umhverfi og aðlagast því áður en þau hefja skólagöngu í sínum hverfisskóla. Sum barnanna eru talin þurfa tiltekna skólaþjálfun og sálrænan og tilfinningalegan stuðning áður en til flutnings kemur og myndi kennarahópurinn og aðrir sérfræðingar veita þann stuðning. Þegar börnin eru tilbúin að flytjast í sinn hverfisskóla fylgja þeim upplýsingar og mat á stöðu þeirra frá deildinni til heima- eða hverfisskólans. 

Þörf barnanna fyrir þjónustuna ræðst því algjörlega af námslegum bakgrunni þeirra, færni í eigin móðurmáli, skólareynslu  og líðan. 

Enn er ekki endanlega búið að ákveða móttökuskóla en nokkrir grunnskólar í Reykjavík búa yfir þekkingu og reynslu af móttöku barna flóttafólks og hafa lýst yfir áhuga á verkefninu.  Sérstök áhersla verður lögð á fagþekkingu við ráðningu kennaranna í móttökuhópnum.

Aðrar tillögur starfshópsins lúta að því að auka stuðning við nýkomin börn og fjölskyldur þeirra við komu til borgarinnar með kynningu á skóla, hverfi og nærþjónustu en einnig að því að bæta könnun og mat á stöðu barnanna við komu í skóla og skipulag náms í kjölfar matsins.

Starfshópurinn leggur áherslu á að nám og skipulag sé einstaklingsmiðað og komi til móts við þarfir fjölbreyttra nemenda með ólíkan bakgrunn, tungumálakunnáttu,  námslega stöðu og reynslu (innflytjendur, flóttamenn, umsækjendur um alþjóðlega vernd).

Starfshópurinn leggur til aukinn stuðning við starfsstaði vegna móttöku barna sem hefja skólagöngu í íslensku málumhverfi og leitast er við að leggja betri grunn að námi þeirra og um leið auka tækifæri þeirra til að ná betri fótfestu í íslensku samfélagi. 

Samhliða því að settur verði upp móttökuskóli verður einnig farið af stað með móttökuáætlunina  „Velkomin í hverfið þitt“. Hún verður innleidd í öll hverfi borgarinnar. Með verkefninu er lögð áhersla á heildræna nálgun við móttöku nýrra fjölskyldna með börn á leik- og grunnskólaaldri. Að verkefninu munu koma fulltrúar grunnskóla, sem er fyrsti áfangastaður í móttökunni, fulltrúar leikskóla ef barn er á leikskólaaldri, fulltrúi frístundamiðstöðvarinnar og fulltrúi þjónustumiðstöðvar.  Sérstaklega verður hugað að fjölskyldum í viðkvæmri stöðu. Framkvæmdin verður hjá, þjónustu- og frístundamiðstöðvum í hverfum og fulltrúum leik- og grunnskóla. Markmiðið að verkefnið verði í að fullu komið til framkvæmda í öllum hverfum haustið 2019.

Skýrsla starfshóps.