Mörg ungmenni vilja vinna á leikskóla í sumar

Skóli og frístund

""

Um 240 umsóknir bárust um sumarstörf fyrir ungt fólk í leikskólum borgarinnar.

Samþykkt var snemma á vormisseri að bjóða upp á sumarstörf fyrir ungmenni í leikskólunum til að vekja áhuga þess á kennslu- og uppeldisstörfum sem eftirsóknarverðum starfsvettvangi.

Um er að ræða 30 störf fyrir 17 ára og 30 störf fyrir 18 ára og eldri. Samtals er því um að ræða 60 starfsmenn, eða 1 starfsmann á hvern leikskóla borgarinnar og er ráðningartíminn tíu vikur.

Lögð verður áhersla á góða móttöku og þjálfun fyrir ungmennin þannig að gott tækifæri skapist til að þau kynnist fagstarfinu og öðlist þekkingu á því hvað felst í fagstarfi með börnum í leikskólum.

Í júní og júlí verða haldin námskeið fyrir alla sumarstarfsmennina og samhliða boðið upp á stutt vettvangsnám. Markmiðið er að unga sumarstarfsfólkið verði upplýst um þau fjölbreyttu og skemmtilegu tækifæri til útiveru og upplifunar í borginni sem eru í boði fyrir þau sjálf og í starfi með börnum. Einnig að þau upplifi gleði og sjálfseflingu með ánægjulegu sumarstarfi hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.