Moka frá tunnum og sorpgerðum

Sorphirða

Það léttir starfsfólki sporin ef greiður aðgangur er að sorptunnum. Hálka og snjór getur komið í veg fyrir tæmingu. Mynd/Róbert Reynisson
Starfsfólk sorphirðu að störfum um vetur

Sorphirðubílar eru nú á ferð um Vesturbæinn og verða eftir það í Miðborg og Hlíðum. Mikilvægt er að greiða götu sorphirðufólks með mokstri og söltun en erfið færð tefur verulega hirðu.

Um jól og áramót er aukið álag í sorphirðu vegna aukinnar neyslu á mat og umbúðaúrgangs.

Í Vesturbæ og Miðborginni er auk þess mikill fjöldi gesta, innlendra og erlendra ferðamanna, gisting er töluverð meðal annars í Airbnb. Einnig eru vörusendingar af netinu vinsælar fyrir jólin en þeim fylgir nokkuð magn af umbúðum.

Endurvinnslustöðvar Sorpu

Mikilvægt að brjóta vel saman pappa áður en hann fer í tunnuna undir pappír. Sorphirða Reykjavíkur vill minna á að endurvinnslustöðvar Sorpu eru opnar í dag, gott að fara með stærri umbúðir þangað.

Moka frá tunnum og sorpgerðum

Tafir á sorphirðu á pappa og plasti og á grenndarstöðvum í borginni má skýra meðal annars með mikilli umferð á götum fyrir jól. Vinnutími starfsfólks Sorphirðu er lengdur í desember til að losa sem mest fyrir hátíðarnar. Auk þess var sorphirðan að störfum laugardaginn 23. desember, svo verður einnig laugardaginn fyrir gamlársdag.

Íbúar geta lagt sitt af mörkum til að flýta fyrir hirðunni svo hægt verði að þjónusta alla með því að trygga gott aðgengi að tunnum. Nú þarf að moka frá og salta en það léttir á þessari erfiðisvinnu og flýtir fyrir.