Minningardagur trans fólks

Trans og Progressive Pride fánar blakta við hún á göngubrúnni við Ráðhúsið

Í dag, 20. nóvember, er alþjóðlegur minningardagur trans fólks. Af þessu tilefni er trans fánum og inngildandi framfarafánum (Inclusive Progressive Pride) flaggað við Ráðhús Reykjavíkur.
 

Dagurinn er til að minnast trans fólks sem hefur verið myrt eða tekið eigið líf. Minningardagur trans fólks var upphaflega haldinn í lok nóvember 1999 af hálfu Gwendolyn Ann Smith til að heiðra minningu Ritu Hester, vinkonu hennar og trans konu sem var myrt í Boston í nóvember árið 1998. Nú er dagurinn haldinn árlega um allan heim þann 20. nóvember, á dánardegi Chanelle Pickett.

Í ár er minnst 320 trans einstaklinga sem myrt hafa verið frá 1. október 2022 til 30. september 2023. 94% þeirra voru trans konur eða manneskjur með kvenlæga kyntjáningu samkvæmt tölum Transgender Europe (TGEU), regnhlífarsamtaka trans samtaka í Evrópu og Mið-Asíu. Tekið skal fram að talan byggir eingöngu á skráðum fjölda morða á trans einstaklingum.

Trans Ísland, félag trans fólks á Íslandi, heldur minningardag trans fólks í húsnæði Samtakanna '78 að Suðurgötu 3, 101 Reykjavík. Viðburðurinn fer fram á íslensku og er húsnæðið aðgengilegt hjólastólum.