Minna álag meiri starfsánægja

Stjórnsýsla Atvinnumál

Verkið Þúfa við Reykjavíkurhöfn

Stytting vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg skapar meiri starfsánægju og minnkar álag. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um tilraunaverkefnið sem lögð var fyrir borgarráð í gær.

Vorið 2014 samþykkti borgarstjórn að stofnaður yrði starfshópur með það að markmiði að útfæra tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. Markmið tilraunaverkefnisins var að kanna áhrif þess á heilsu, vellíðan, starfsanda og þjónustu. Starfsstaðir í 1. áfanga voru valdir á sviði
velferðar þar sem starfsfólk var undir miklu álagi. Stýrihópur var skipaður kjörnum fulltrúum og fulltrúa BSRB til að hafa umsjón með verkefninu. Fyrsti áfangi tilraunaverkefnisins varði frá 2015- 2018 en lokaskýrslu vegna áfangans var skilað í apríl 2018.

Niðurstöður úr viðhorfskönnun starfsmanna Reykjavíkurborgar sýndu að á starfsstöðvunum fimm sem tóku þátt í fyrsta áfanga verkefnisins jókst bæði starfsánægja og sveigjanleiki í starfi ásamt því að álag minnkaði eftir að styttingin hófst.

Félagsvísindastofnun hefur framkvæmt þrjár kannanir til að meta áhrif styttingar vinnuvikunnar á starfsfólk Reykjavíkurborgar. Þátttakendur ásamt starfsfólki starfsstaða sem valið var í samanburðarhóp fengu sendar kannanir um almenna líðan, vinnutengt álag, álagseinkenni og viðhorf til starfsins ásamt almennum spurningum er sneru að tilraunaverkefninu.

Í ljós kom að stytting vinnuvikunnar hafði jákvæð áhrif á almenna líðan starfsmanna. Jafnframt voru þátttakendur í tilraunahópi líklegri til að eiga sjaldnar við vinnutengt álag að stríða en samanburðarhópur og það dró úr líkamlegum álagseinkennum hjá þeim sem fengu styttingu. Þátttakendur í tilraunahópi upplifðu betri starfsanda á vinnustað og fundu fyrir meira jafnvægi á milli vinnu og einkalífs.

Annar áfangi hófst í febrúar árið 2018 og var gerð breyting á og styttingin minnkuð niður í  3 klst. í samræmi við nýjar verklagsreglur.

Þegar niðurstöður viðhorfskönnunar voru skoðaðar fyrir starfsstaðina í öðrum áfanga verkefnisins mátti sjá að það dró úr álagi og sveigjanleiki í starfi jókst árið 2019 miðað við árið 2018. Starfsánægja stóð í stað á milli ára. Sömu niðurstöðu má sjá í samanburðarhópnum svo erfitt er að draga ályktun um að styttingin hafi haft þessi áhrif.

Veikindafjarvistir voru skoðaðar og virðast sveiflur í þeim vera í samræmi við sveiflur hjá samanburðarhópi og hefur veikindahlutfall aukist á milli ára. Þetta er í samræmi við það sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu en í nýlegri skýrslu  kemur fram að veikindadögum í íslenskum fyrirtækjum hefur fjölgað frá árinu 2015.

Veikindafjarvistir þátttökustaða voru einnig skoðaðar eftir starfategund. Misjafnt er eftir tegund starfa hvort veikindi aukast eða minnka en þau virðast aukast mest í umönnunarstörfum en það dregur úr veikindum í útistörfum. Eins voru veikindafjarvistir þátttökustaða skoðaðar með tilliti til fjölda tíma í styttingu en þar sést að aukning veikindafjarvista er minnst hjá þeim sem hafa 3 klukkustundir í styttingu.

Afköst hafa ekki minnkað þrátt fyrir styttingu vinnuvikunnar og svo virðist sem þátttakendur í verkefninu nýti að meðaltali 78% af sinni styttingu. Athugað var hvort yfirvinna hefði aukist á móti styttingunni en svo reyndist ekki vera.

Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri kannaði sérstaklega áhrif styttingarinnar á fjölskyldulíf og samspil vinnu og einkalífs og helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að styttri vinnuvika auðveldar barnafjölskyldum að samræma vinnu og einkalíf og minnkar álag sem er á heimili sér í lagi tengt skutli barna í vistun og tómstundir auk þess sem samverustundum fjölskyldna fjölgaði. Að auki upplifðu þátttakendur sig afslappaðri og rólegri og höfðu samskipti við vinnufélaga og fjölskyldumeðlimi batnað.

Í könnunum Félagsvísindastofnunar og á fundum með stjórnendum sem hefðu kosið að taka þátt en gátu það ekki kom fram að sveigjanleikinn hefði mátt vera meiri á útfærslu styttingarinnar. Sem dæmi var nefnt að betra hefði verið að heimila lokanir eftir hádegi á föstudögum eða að leyfa uppsöfnun á styttingartímum þar sem hægt væri að taka vaktafrí á móti.

Lokaskýrsla 2019: Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar