Mikilvægt fyrir allt fólk að hafa hlutverk

Birgir, Margrét, Þórir og Elín voru á velferðarkaffi

Á velferðarkaffi í morgun var fjallað um mikilvægi inngildingar í menningar- og atvinnulífi og að allt fólk fái að taka þátt á sínum forsendum. Sagt var frá fjölbreyttum starfsstöðum Reykjavíkurborgar þar sem fatlað fólk getur stundað vinnu og virkni og sagt frá atvinnu með stuðningi í gegnum Vinnumálastofnun. Þá sagði listafólk Listvinnzlunnar frá sinni starfsemi og framtíðarsýn.

Mikil áhersla er lögð á það hjá Reykjavíkurborg að auka tækifæri fatlaðs fólks til að sækja launaða vinnu, nám, virkni og félagsstarf. Um 300 einstaklingar sækja vinnu og virknimiðaða stoðþjónustu fyrir fatlað fólk á vegum Reykjavíkurborgar, ýmist í gegnum Virknimiðstöð Reykjavíkurborgar og hins vegar á grundvelli þjónustusamninga við styrktarfélagið Ás og  handverkstæðið Ásgarð. Sigurbjörn Rúnar Björnsson er forstöðumaður Virknimiðstöðvar en undir hana fellur Smiðjan í Gylfaflöt, Iðjuberg í Breiðholti, Opus í Völvufelli, Smírey í Arnarbakka og Klúbbhúsinu. Hann sagði frá daglegu starfi á þeim stöðum og sýndi meðal annars viðtal við Sólon Ingvar Magnússon en hann nýtir sér þá þjónustu sem veitt er í Opus. Sólon sýndi frá listsköpun sinni og leyfði áhorfendum að skyggnast inn í daglega starfsemi í Opus.

Þess má geta að verk eftir Sólon og marga aðra listamenn Virknimiðstöðvarinnar er hægt að kaupa á jólamarkaði Virknimiðstöðvarinnar sem nú er í gangi í Borgarbókasafninu í Spönginni. Þar er hægt að gera góð kaup fyrir jólin.

Miklar breytingar átt sér stað á síðustu árum

Í gegnum Vinnumálastofnun er hægt að sækja um atvinnu með stuðningi og sértæka ráðgjöf. Þar er jafnframt hægt að sækja um verndaða vinnu, hæfingu og virkniþjálfun. Björn Finnbogason, ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun, sagði frá þessum kostum. Hvað atvinnuþátttöku fatlaðs fólks varðar sagðist Björn hafa orðið var við miklar breytingar á þeim sex árum sem hann hefur starfað sem ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun. Fatlað fólk sé nú víðar í atvinnulífinu,  fleiri vilji vinna launaða vinnu og geri skýrar kröfur. Þetta sagði hann jákvæðar breytingar, enda sé markmiðið að einstaklingar fái ráðningu á vinnumarkaði sem falla að þeirra óskum. Til að þróunin verði áfram í þá átt þurfi að brjóta staðalímyndir og fjölga tækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Gríðarlega mikilvægt sé fyrir fatlað fólk líkt og alla aðra að hafa hlutverk og taka þátt í samfélaginu.

Bara kvíðinn fyrsta daginn í vinnunni

Birgir Gíslason sagði frá reynslu sinni af því að sækja atvinnu með stuðningi. Birgir hefur nóg að gera í lífinu. Hann var á starfsbraut hjá FB og stundaði í kjölfarið diplómanám við HÍ, hann býr í Stuðlaskarði þar sem hann er umkringdur góðum vinum sínum og er búinn að sækja um að komast í leiklistarnám hjá LHÍ. Hann ákvað að sækja um vinnu, því hann vildi fá greidd laun. Hann sótti því um atvinnu með stuðningi og fékk vinnu hjá Innnes með milligöngu Vinnumálastofnunar. Hann vinnur frá 7 á morgnana til 13 eftir hádegi við að merkja vörur á lagernum og fær stuðning frá starfsfólki Stuðlaskarðs í vinnunni. Hann sagðist mjög ánægður í vinnunni og hafa sérstaklega gaman af því að sjá vörur sem hann hefur sjálfur merkt í búðinni. Hann fékk þá spurningu utan úr sal hvort honum hafi þótt erfitt að byrja að vinna og hann svaraði: „Það var bara erfitt fyrsta daginn, þá var ég aðeins kvíðinn.“

Valdeflandi, atvinnuskapandi og inngildandi vettvangur

Nýverið samþykkti velferðarráð að styðja við starfsemi Listvinnzlunnar með framlagi í formi húsnæðis. Er það gott dæmi um þá viðleitni Reykjavíkurborgar að auka fjölbreytni í framboði fyrir fatlað fólk. Þau Margrét M. Norðdahl, Þórir Gunnarsson og Elín Sigríður María Ólafsdóttir sögðu frá Listvinnzlunni og hugmyndum sínum um hvernig hún kemur til með að þróast og auka tækifæri fólks. Öll eru þau listafólk og berjast fyrir jafnrétti. Þau sögðu frá því að fötluðu fólki bjóðist færri tækifæri til þátttöku í listalífi en öðrum og því vilja þau breyta. Margrét benti á að þegar fólk leggur stund á listnám byggi það upp tengslanet og eignist sitt bakland fyrir frekari þátttöku í listalífinu. „Það opnast alls konar dyr fyrir þér,“ sagði Margrét og Elín bætti við: „En það eru ekki allir sem fá að fara í gegnum dyrnar.“ Markmið Listvinnzlunnar er að breyta þessu en hún á að vera valdeflandi, atvinnuskapandi og inngildandi vettvangur. Meðal annars er stefnt að því að setja á fót listamiðstöð, þar sem verður starfrækt gallerí, veitt margvísleg ráðgjöf og þjónusta, auk þess að kynningum og umboðsstarfi fyrir listafólk verði sinnt.

Streymið í heild má horfa á hér fyrir neðan.