Mikilvægt að vera leitandi og prófa sig áfram í íþróttum og tómstundum

Borgarstjóri ræðir við börnin í frumsýningarpartíinu.
Borgarstjóri talar við börnin sem komu fram í myndbandinu „Finndu kraftinn þinn“

Á þriðja tug barna með afar fjölbreytt áhugamál koma, ásamt þeim Berglindi Öldu Ástþórsdóttur leikkonu og Kristófer Acox körfuboltamanni, fram í kraftmiklu nýju myndbandi sem meðal annars verður sýnt í grunnskólum. Í því geta börn fengið hugmyndir að fjölbreyttum íþróttum, tómstundum og menningarstarfi sem í boði er í þeirra nærumhverfi. 

Í lok síðustu viku horfði borgarstjóri á frumsýningu myndbandsins með börnunum, aðstandendum þeirra og fleirum sem koma að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni. Hann þakkaði krökkunum sérstaklega fyrir þátttökuna og hvatti öll viðstödd til að halda áfram að finna sín áhugamál og þar með kraftinn sinn. 

Í myndbandinu má sjá börn í fjölbreyttum íþróttum, við listköpun, tónlistarflutning og fleira. Þá deila þau Kristófer Acox og Berglind Alda sinni sýn en þau gáfu bæði vinnu sína við gerð myndbandsins, sem var unnið af starfsfólki Vesturmiðstöðvar Reykjavíkurborgar í samvinnu við Mixtúru á skóla- og frístundasviði. „Ég held það sé bara ofboðslega mikilvægt að vera leitandi, prófa alls konar og finna eitthvað sem manni finnst raunverulega skemmtilegt því það er það sem gefur lífinu gildi,“ segir Berglind. Undir það tekur Kristófer og segir mikilvægt að prófa sig áfram í fleiri en einni íþrótt. Sjálfur hafi hann, auk körfuboltans, æft handbolta, fótbolta og frjálsar íþróttir. Þá hafi hann alltaf langað að spila á píanó. 

Smelltu hér fyrir til að skoða myndbandið.

Skjáskot úr myndbandinu „Finndu kraftinn þinn“

 

Verndandi þáttur að lifa virku lífi

Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, verkefnastjóri á Vesturmiðstöð, heldur utan um verkefnið „Finndu kraftinn þinn“. „Rannsóknir sýna að það að eiga áhugamál, er eitt af verndandi gildunum í uppeldi barna. Heilbrigður lífsstíll, góður félagsskapur og tengingar við annað fólk skipta okkur öll svo miklu máli,“ segir Sigríður Arndís, spurð um ástæðu þess að ákveðið var að gera myndband af þessu tagi. „Við vildum sérstaklega reyna að ná til barna af erlendum uppruna en reynslan hefur sýnt að þau stunda síður íþróttir og tómstundir en önnur börn. Hins vegar getur myndbandið höfðað til allra barna sem sem kunna að þurfa smá stuðning við að finna sín áhugamál,“ segir hún. 

Hugmyndin er að myndbandið verði sýnt í grunnskólum og í framhaldinu skapist vettvangur til umræðna, skrafs og ráðagerða. Samhliða sýningu myndbandsins verður bæklingi dreift sem börnin geta farið með heim, þar sem sést á myndrænan hátt hvers konar starf er í boði í borginni.  

Þau sem vilja vita meira eða vilja fá aðstoð við að finna kraftinn sinn geta sent póst á finndukraftinn@reykjavik.is og fengið aðstoð Sigríðar og hennar samstarfsfólks við það. 

Jóna, verkefnastjóri á Vesturmiðstöð, talar við börnin fyrir frumsýningu

Jóna Helga Ástudóttir, verkefnastjóri á Vesturmiðstöð, kom að gerð myndbandsins. Hér talar hún við börnin sem fram koma í myndbandinu fyrir frumsýningu þess.