Mikilvægt að hlúa að hverjum og einum

Skóli og frístund

""

Finnski menntafræðingurinn Pasi Sahlberg fundaði með stjórnendum í skóla- og frístundastarfi borgarinnar í Ráðhúsinu í dag. 

Sahlberg flutti stutt erindi þar sem hann afbyggði nokkrar goðsagnir um finnskt skólakerfi og greindi frá þeim lærdómi sem hann hefur tekið saman um skilvirkt skólakerfi. Hann lagði á fundi sínum með stjórnendum áherslu á mikilvægi þess að hafa börn og nemendur sem virka þátttakendur í öllu námi og í mótun skóla- og frístundastarfsins. Vekja þyrfti áhuga barna á náminu og huga að hverjum og einum. Einnig sagði hann mikilvægt að sem mest félagslegt jafnræði ríkti í skólakerfinu.

Sahlberg hefur starfað sem ráðgjafi stjórnvalda í menntamálum austan hafs og vestan og mun leiða teymi innlendra og erlendra sérfræðinga sem koma munu að mótun menntastefnu fyrir Reykjavíkurborg fram til ársins 2030. Sjá https://pasisahlberg.com/.

Sú vinna hófst með heimsókn hans nú en skipaður hefur verið þverpólitískur stýrihópur og verkefnastjórn sem mun stýra stefnumótunarvinnunni. Sahlberg mun leiða teymi  ráðgjafa, innlendra og erlendra, sem koma munu að verkefninu. Í því teymi eru m.a. Gerður G. Óskarsdóttir dr. í menntunarfræðum, Jón Torfi Jónasson prófessor við HÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir lektor við HÍ og Arna H. Jónsdóttir lektor við HÍ.