Mikill meirihluti eldri borgara telur heilsu sína góða

Velferð

""

Mikill meirihluti eldra fólks í Reykjavík telur andlega heilsu sína frekar eða mjög góða, eða um 90%. Ívið færri meta líkamlega heilsu sína frekar eða mjög góða, eða 72%. Þetta er á meðal þeirra fjölmörgu vísbendinga um hagi og líðan eldri borgara sem lesa má úr nýrri könnun sem lögð var fyrir 1800 einstaklinga, 67 ára og eldri á landinu öllu. Smelltu hér til að nálgast skýrsluna fyrir Reykjavík og hér fyrir skýrsluna yfir landið allt.  

Þetta er í fimmta sinn sem könnunin er lögð fyrir eldri borgara en í henni var meðal annars spurt um almennt heilbrigði, viðhorf til heilbrigðisþjónustu, þá aðstoð sem fólk nýtir sér í daglegu lífi og félagslega virkni. 

„Svörin við könnuninni og samanburðurinn á milli ára nýtast okkur á velferðarsviði vel við mótun og þróun þjónustu við eldri borgara í Reykjavík. Þessar upplýsingar hjálpa okkur líka við fylgjast með þeim breytingum sem verða á milli kynslóða. Við sjáum til dæmis hraða aukningu í notkun á tæknilausnum í hópi eldri borgara en við höfum einmitt verið í miklu átaki með velferðartækni á sviðinu,“ segir Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri  öldrunarmála á velferðarsviði. 

Á meðal þess sem mikilvægt er að fylgjast með og taka mið af í mótun þjónustu við eldri borgara er félagsleg einangrun og einmanaleiki. 67% þeirra sem svöruðu könnuninni sögðust mjög sjaldan eða aldrei vera einmana. Þau sem eru gift eða í sambúð eru sjaldnar einmana en þau sem eru ógift eða hafa misst maka sinn. Þannig segjast 11% þeirra sem eru gift eða í sambúð stundum eða oftar vera einmana á meðan 20% ógiftra og 31% ekkla eða ekkja segjast stundum eða oftar vera einmana. 

Meirihluti þeirra sem svara könnuninni, eða 80%, fá börn, ættingja eða vini í heimsókn einu sinni í viku eða oftar. 93% eru í símasambandi við börn, ættingja eða vini einu sinni í viku eða oftar. Þá virðast æ fleiri nýta sér tæknina til að vera í sambandi við sitt fólk en 62% er í sambandi við börn, vini eða ættingja í gegnum internetið einu sinni í viku eða oftar. 

Eins er mikilvægt að fylgjast með því að hve miklu leyti eldra fólk nýtir sér tæknina í daglegu lífi. Þegar spurt var sérstaklega um tölvuvirkni kom í ljós að mikill munur er á fólki eftir aldri. Þannig nota 97% þeirra sem eru 67–72 ára internetið til að fara inn á heimabanka en aðeins 36% þeirra sem eru 80 ára eða eldri. 

Í ár var sérstök áhersla lögð á að kanna áhrif Covid-19 á hagi og líðan eldra fólks. 39% telja sig ekki hafa einangrast eftir að Covid-19-faraldurinn hófst. Af þeim 178 sem töldu sig hafa  einangrast svolítið, nokkuð, frekar eða mjög mikið voru 11% sem töldu að það myndi hafa varanleg áhrif á þau. Þá töldu 21% andlegri heilsu sinni hafa hrakað frá því að faraldurinn hófst.  

„Það er sérstaklega mikilvægt að við fylgjumst vel með þessum vísbendingum til að koma í veg fyrir að þau vandamál sem sumir eldri borgarar standa frammi fyrir vegna heimsfaraldursins fylgi þeim ekki áfram eftir að honum lýkur,“ segir Berglind. 

Það var Félagsvísindastofnun HÍ sem sá um framkvæmd könnunarinnar fyrir velferðarsvið Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytið og Landssamband eldri borgara. Könnunin fór fram í nóvember 2020 til janúar 2021 og náði til 1800 manns á landinu öllu, þar af voru 593 í Reykjavík.