Mikill áhugi og þörf á að hraða innleiðingu stafrænnar tækni

Covid-19 Skóli og frístund

""

Meirihluti skóla- og frístundaráðs samþykkti á fundi sínum í dag að hraða innleiðingu stafrænnar tækni í öllu skóla- og frístundastarfi borgarinnar.

Í samþykkt ráðsins er m.a. vísað til nýrrar menntastefnu og góðrar reynslu af fjarkennslu og fjarnámi á tímum COVID-19 faraldursins.

Lögð er áhersla á uppfærslu tækjabúnaðar og starfsþróun með áherslu á stuðning við lærdómssamfélag í skóla-  og frístundastarfi. Einnig á markvissa notkun upplýsingatækni með það að markmiði að nemendur fái nám og kennslu við hæfi og starfsfólk bjargir og aðbúnað til að virkja sköpunarkraft barna og ýta undir frumkvöðlahugsun og nýsköpun. 

Lagt er til að áætlun með áfangaskiptingu og forgangsröðun um hraðari innleiðingu stafrænnar tækni liggi fyrir eigi síðar en 15. júní 2020.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars:

- Síðustu vikur hefur starfsfólk Nýsköpunarmiðju menntamála hjá skóla- og frístundasviði (NýMið) tekið eftir miklum áhuga og þörf starfsfólks fyrir upplýsingatækni sem styður við samskipti, leik og nám. Samhliða hefur notkun á ýmsum tæknilausnum aukist til muna. Þetta á meðal annars við um
G Suite skólalausnina sem mikil vinna hefur verið lögð í að innleiða. Notkun á aðgengilegum hlutum G Suite til að halda fjarfundi (Meet) og sinna námsumsjón (Classroom) hefur skipt miklu máli fyrir nám og kennslu. Þá eru stafrænar félagsmiðstöðvar, útsending á söng- og hreyfistundum hjá leikskólum dæmi um markvissa notkun stafrænnar tækni. Mestu máli hefur þó skipt hvað starfsfólk í skóla- og frístundastarfi hefur brugðist við af mikilli fagmennsku, endurskoðað skipulag og nýtt leiðir og lausnir sem styðja við nám, kennslu og mikilvæg samskipti. Fyrir þetta ber að þakka og ekki síður hrósa. Vert er að vekja athygli á því að hugmyndum, lausnum og verkfærum á tímum Covid hefur verið safnað markvisst í verkfærakistu menntastefnuvefsins. 

Sjá tillögu meirihlutans og greinargerð.