Mikil þörf á að efla foreldrasamstarf

Skóli og frístund

Unglingar í miðbæ Reykjavíkur.

Eftir heimsfaraldur er komið að endurreisn foreldrasamstarfs. Fimm fundir verða haldnir í Reykjavík í samstarfi við Heimili og skóla sem vinnur að eflingu svæðissamtaka foreldra um allt land.

Fyrsti fundurinn í Reykjavík er ætlaður foreldrum og forsjárfólki barna í Laugardal, Háaleiti og Bústaðarhverfi, mánudaginn 20. mars.

Virk þátttaka foreldra lykilþáttur

Heimili og skóli hlutu sérstakan stuðning frá stjórnvöldum í byrjun árs. Við það tilefni sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra að verulega hafi dregið úr virku samstarfi heimila og skóla á undanförnum árum. Eins að virk þátttaka foreldra sé lykilþáttur í forvörnum og mótun á jákvæðum skólabrag. Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri frístundastarfs á skóla- og frístundasviði segir að starfsfólk á vegum borgarinnar sem vinni við skóla- og frístundastarf hafi vel merkt breytingar á unglingahópunum. Hún segir virkilega þarft að fara í átak til að fá foreldrana í lið með skólunum, frístundaheimilunum og félagsmiðstöðvunum, því saman nái þau árangri börnunum og unglingunum til heilla. Eins og segir í slagorði verkefnisins  „Samvinna barnanna vegna“.

Fundir verða næstu tvær vikur

Fundirnir eru haldnir fimm sinnum, einn í hverju hverfi, kl. 19:45-21:00. Fólk er kvatt til að mæta á staðinn en þeir sem ekki eiga heimangengt geta horft á fundinn í streymi. Til að fá aðgang að streyminu þarf að skrá sig í gegnum hlekk sem foreldrar fá sendan í tölvupósti.

Laugardalur, Háaleiti og Bústaðarhverfi – 20. mars
Salurinn Skriða, Menntavísindasviði Háskóla Íslands við Stakkahlíð.

Vesturbær, Miðborg og Hlíðar – 21. mars
Salurinn Skriða, Menntavísindasviði Háskóla Íslands við Stakkahlíð.

Grafarvogur og Kjalarnes, Hlaðan, Gufunesbær – 27. mars
Hlaðan Gufunesbæ

Breiðholt – 28. mars
ÍR heimilið, Skógarseli 12

Árbær, Norðlingaholt, Grafarholt og Úlfarsárdalur – 29. mars
Fram heimilið í Úlfarsárdal

Markmið verkefnisins er að:

  • Stuðla að endurreisn og eflingu foreldrastarfs um allt land á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi með því að virkja foreldra, veita þeim stuðning og ráðgjöf og gefa þeim hlutverk og verkfæri til að vera virkir þátttakendur í öflugu samstarfi við skóla, aðra foreldra og sveitarfélögin.
  • Fjármagna fræðslu- og samráðsverkefni styrkþega, m.a. mótun og innleiðingu á farsældarsáttmála um land allt í samvinnu við ýmsa aðila.
  • Stuðla að virku og víðtæku samtali við foreldra þar sem áhersla verður lögð á að mæta öllum foreldrum óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Samhliða því verður leitað leiða til að styðja sérstaklega við foreldra af erlendum uppruna, foreldra barna með annað móðurmál en íslensku og foreldra barna í viðkvæmri stöðu.
  • Styðja við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
  • Auka símaráðgjöf fyrir foreldra.