Jólaskákmót grunnskólasveita Reykjavíkur fór fram um síðustu helgi og voru 42 sveitir skráðar til leiks sem er mikil aukning frá síðasta ári.
Mótið er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og Taflfélags Reykjavíkur hefur verið haldið með einum eða öðrum hætti allt síðan 1983. Eins og síðustu ár var mótinu skipt í þrjá aldurs flokka og var teflt frá morgni til kvölds. Teflt var í Skákhöll Taflfélags Reykjavíkur og má ætla að yfir 200 manns hafi verið á staðnum yfir daginn. Frétt um skákmótið með skemmtilegum myndum er á vef Taflfélags Reykjavíkur
Hart barist í öllum flokkum
Þessi skemmtilega byrjun á desember var líka krefjandi því keppnin um verðlaunasæti var hörð. Í yngsta flokknum voru skráðar 12 sveitir. Eftir sex umferðir var það Melaskóli sem stóð einn efstur með 19,5 vinning. A sveit Rimaskóla var í öðru sæti með 18,5 vinning. Þriðja sætið féll í hlut Langholtsskóla með 15,5 vinning, hálfum vinningi yfir næsta liði. Efsta sveit stúlkna var síðan Stúlknasveit Rimaskóla.
Í 4-7 flokki voru 20 lið skráð til leiks og var skáksalurinn í Faxafeninu nánast kominn að þolmörkum. A sveit Melaskóla rétt náði að merja sigurinn með hálfum vinning yfir A sveit Rimaskóla. A-lið Stúlkna Rimaskóla var síðan í þriðja sæti og varð í leiðinni efsta stúlkna liðið.
Í elsta flokknum var það Landakotsskóli sem vann með 21 vinning af 24 mögulegum. Í öðru sæti var það Réttarholtsskóli með 17 vinninga og skammt á eftir var Breiðholtsskóli með 15 vinninga. Efst stúlkna sveita var stúlknasveit Rimaskóla. Vel gert hjá Rimaskóla sem náði að manna stúlknalið í öllum aldursflokkum.