Mikil aðsókn í Fab Lab námskeið á pólsku
Nýverið komu til landsins þau Karolina Guzek og Maciek Naskret frá Robisz.to í Póllandi og héldu Fab Lab námskeið fyrir pólskumælandi einstaklinga búsetta hér á landi. Svo mikil aðsókn var á námskeiðin að bæta þurfti við öðru til að fleiri kæmust að til að þróa hugmyndir sínar.
Mikil aðsókn í Fab Lab námskeið á pólsku
Fab Lab (Fabrication Laboratory) er smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðja gefur fólki tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Eftir að Fab lab námskeiðin voru haldin á pólsku hefur nokkur fjöldi þátttakenda haldið áfram að mæta í Fab Lab Reykjavík, þar á meðal hönnuðir, smiðir og annað skapandi fólk til að þróa hugmyndir sínar áfram og njóta til þess leiðsagnar starfsfólks í Fab Lab Reykjavík. Stefnt er að enn frekari samstarfi milli Íslands og Póllands en einmitt um þessar mundir er starfsfólk Fab Lab Reykjavík statt í Póllandi til að halda námskeið og koma á frekari tengslum.
2000 smiðjur um allan heim
Fyrsta Fab Lab smiðjan varð til í MIT háskóla í Bandaríkjunum en nú eru um 2000 smiðjur um allan heim. Á Íslandi er að finna tíu Fab Lab smiðjur. Sú stærsta þeirra er í Reykjavík en þangað berast 8000 heimsóknir að meðaltali á ári.
Reykjavíkurborg er bakhjarl Fab Lab Reykjavík, ásamt Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þar sem smiðjan er staðsett, Háskóla-, vísinda og nýsköpunarráðuneytinu og Mennta- og barnamálaráðuneytinu. Mikil ánægja hefur verið með það starf sem fer fram í smiðjunni en í nýjum meirihlutasáttmála borgarinnar segir meðal annars: „Við viljum efla nýsköpunarmenningu og deilihagkerfi í samfélaginu. Til þess viljum við styðja við nýsköpunarþróunarsetur og FabLab í samstarfi við skólasamfélög og íbúa."
Náðu til stórs hóps fólks
Agnieszka Genowefa Bradel, sem starfar í Suðurmiðstöð Reykjavíkurborgar, sá til þess auglýsingar um námskeiðið næðu til pólskumælandi fólks á Íslandi. Auglýsingarnar náðu meðal annars eyrum eins vinsælasti hlaðvarpsstjórnanda Póllands, Tu Okuniewska, sem sagði frá því að til stæði að halda Fab Lab smiðju á pólsku í Reykjavík og hvatti fólk til að mæta, sem kann að skýra mikla ásókn að hluta. Hún er búsett í Reykjavík en nýtur mikilla vinsælda meðal pólskumælandi fólks um allan heim.
Í meirihlutasáttmálanum segir einnig að vilji sé fyrir því að tryggja jöfn tækifæri fjölbreyttra hópa þar sem engin eru skilin eftir og gera atvinnulíf og nýsköpun aðgengileg öllum. Það er einmitt eitt af markmiðum Fab Lab, að öll fái tækifæri til að þróa hugmyndir, eins og Þóra Óskarsdóttir, forstöðukona Fab Lab Reykjavíkur, bendir á. „Fab Lab er staður þar sem fólk getur komið og látið hugmyndir sínar verða að veruleika. Við erum fyrst og fremst að styðja við nýsköpun, kveikja hugmyndir og kenna fólki á tæknina. Við viljum ná til allra, því það á ekki bara að vera afmarkaður hópur sem fær tækifæri til að læra og taka þátt í nýsköpun. Hún á að ná til allra,“ segir hún og bætir því við að nýverið hafi verkefnið fengið Erasmus+ styrk til að efla tækninám í fullorðinsfræðslu.
Hér má lesa meira um Fab Lab og þau sem geta lesið pólsku geta smellt hér til að fræðast meira um Robisz.to í Póllandi.