Mike Pence í Höfða

Stjórnsýsla Mannlíf

""

Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, óskaði eftir því að fá að hitta íslenska ráðamenn í Höfða.

Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, hitti íslenska ráðamenn í Höfða 4. september í boði borgarstjóra. Pence vildi með því feta í fótspor Ronalds Reagans fyrrverandi forseta Bandaríkjanna sem fundaði þar með Mikhail Gorbachev, leiðtoga Sovétríkjanna 1986.

Pence hitti forseta Íslands Guðna Th. Jóhannesson og eiginkonu hans Elizu Reid í Höfða en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti síðan fund með forsetanum ásamt fjölmörgum fulltrúum íslensks viðskiptalífs.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð Pence velkominn í Höfða sem er opinbert móttökuhús borgarstjórans í Reykjavík.

Dagur fór með Pence um Höfða ásamt staðarhaldara Önnu Karen Kristinsdóttur sem rakti sögu hússins í stuttu máli fyrir forsetanum. Síðan ritaði varaforsetinn í sérstaka gestabók sem Reagan og Gorbachev rituðu báðir í eftir leiðtogafundinn í október 1986.

Borgarstjóri færði varaforsetanum nýja bók eftir Guillauma Serina, An Impossible Dream, sem fjallar um leiðtogafundinn í Höfða en sá fundur varð árangursríkari en menn töldu í fyrstu.

„Ég er mjög ánægður með að varaforseti Bandaríkjanna skyldi þiggja boð okkar um að funda í Höfða. Leiðtogafundur Reagan og Gorbachev á sama stað 1986 leiddi til árangursríkasta afvopnunarsamnings sögunnar á sviði kjarnorkuvopna. Hann heitir INF en var því miður slitið fyrir fáeinum vikum. Mér finnst mikilvægt að hafa fengið tækifæri til að ræða vonbrigði mín með þetta á stuttum fundi með varaforsetanum.  Auk þess að rifja upp anda Höfðafundarins hvatti ég til að þráðurinn frá þeim fundi verði tekinn aftur upp. Í því skyni bauð ég Höfða fram til nauðsynlegra funda stórveldanna sem að þeim viðræðum þurfa að koma - trúr því að orð eru til alls fyrst,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og bætir við. „Reykjavík er og á að vera friðarborg.“