Miðar til að afþakka ómerktan fjölpóst

Umhverfi

""

Reykjavíkurborg dreifir nú miðum heim til íbúa sem gera þeim kleift að afþakka ómerktan fjölpóst. Þeir sem ekki lesa miðla á prenti geta með miðunum á einfaldan hátt afþakkað að fá slíkan póst inn um lúguna hjá sér. Þannig getur fólk stuðlað að minni notkun auðlinda, vegna pappírs, prentunar og dreifingar og vegna söfnunar og endurvinnslu á pappírnum.
 

Um er að ræða þrjá mismunandi límmiða. Íbúar geta afþakkað allan fjölpóst, afþakkað annan fjölpóst en fríblöð eða tilgreint þann fjölda fríblaða sem óskað er eftir sem hentar mjög vel fyrir fjölbýli. Skilaboðin eru á íslensku, pólsku og ensku.

Áhersla á að koma í veg fyrir myndum úrgangs

Aðgerðin er ein úrgangsforvarna sem finna má í aðgerðaáætlun í úrgangsmálum 2015-2020. Samkvæmt úrgangsþríhyrningnum skal leggja áherslu á úrgangsforvarnir, það er koma í veg fyrir að úrgangurinn verði til. Úrgangsþríhyrningurinn segir til um að mikilvægasta verkefnið sé að afþakka og draga úr úrgangi og síðan kemur endurnotkun og endurvinnsla.

Áhugi meðal almennings fyrir að afþakka fjölpóst

Í viðhorfskönnun Reykjavíkurborgar og SORPU bs. um flokkun og endurvinnslu kom í ljós að um 70% af svarendum afþökkuðu ekki fjölpóst en gátu mögulega eða mjög vel hugsað sér að gera það.

Reykjavíkurborg dreifir nú límmiðum til þeirra heimila sem hafa ekki nú þegar komið sér upp slíkum merkingum. Einnig verður hægt að nálgast miðana í þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14.

Reykjavíkurborg vonar að íbúar geti nýtt sér miðana og í sameiningu sé hægt að minnka þann úrgang sem fellur til í borginni.

Ný lög um póstþjónustu

Ný lög voru samþykt á Alþingi í fyrrasumar um póstþjónustu og þar var réttur neytenda til að afþakka fjölpóst eða fríblöð tryggður með lögum. Ekki er hægt að afþakka þetta miðlægt heldur þarf hver og einn að gera það með eigin merkingum. Í þessu ljósi er ráðist í útgáfu á afþökkunarlímmiðum fyrir Reykvíkinga nú til að hvetja til minni myndunar úrgangs í borginni.

„28. gr.
Óumbeðnar fjöldasendingar.
     Póstrekendum er skylt að virða merkingar notenda sem kveða á um að viðkomandi viðtakandi óski ekki eftir óumbeðnum fjöldasendingum, svo sem fjölpósti, fríblöðum eða almennu kynningarefni frá fyrirtækjum.
     Tilkynningar veitufyrirtækja, t.d. fjarskipta-, vatns- og rafmagnsveitna, falla ekki hér undir ef verið er að tilkynna um tímabundið rof á þjónustu vegna framkvæmda og því um líkt. Sama gildir um kynningarefni vegna kosninga á vegum stjórnvalda, tilkynningar sveitarfélaga til íbúa sinna og tilkynningar stjórnvalda sem varða almannahag og almannaöryggi.“