Metvika á vef Reykjavíkurborgar

Tónaflóð Rásar tvö á Menningarnótt 2023

Síðasta vika var stærsta vika á reykjavik.is frá upphafi, ástæðan er auðvitað hin frábæra Menningarnótt sem allir elska.

Heimsóknir á reykjavik.is voru 176.332, langflestar á laugardag eða 62,849.

Alls voru 97.840 sem skoðuðu dagskrársíðuna á íslensku sem verður að teljast frábært, gaman að segja frá því líka að 17.398 skoðuðu ensku útgáfuna af dagskránni. Flestir skoðuðu vefinn í síma eða rétt um 70%.

Starfsfólk borgarinnar og Menningarnótt

Vel heppnuð Menningarnótt byggir á samvinnu og samstarfi skrifstofa Reykjavíkurborgar við alla helstu aðila sem lifa og starfa í miðborginni. Undirbúningurinn krefst tíma, samhæfingar og vandvirkni.  Áætlað er að hátt í 150 manns hafi komið að undirbúningi hátíðarinnar, þar af um 70 starfsmenn Reykjavíkurborgar með um þrjátíu verktaka í borgarlandinu sjálfu. Um 50 starfsmenn í menningarstofnunum og í samskiptateymi borgarinnar komu að undirbúningi dagskrár á Menningarnótt.  

Haldnir eru nokkrir undirbúningsfundir fyrir Menningarnótt með hagsmunaaðilum til þess að ganga frá lausum endum og tryggja að allir séu með á nótunum. Öryggi gesta og gangandi á hátíðarsvæðinu eru í fyrirrúmi og vinnur borgin mjög náið með lögreglu, slökkviliði, Landsbjörgu, Frama (leigubílar), rútufyrirtækjum, strætó, félagsþjónustunni og mörgum öðrum.

Flugeldasýningin á Menningarnótt 2023

350 skilti og 300 keilur

Bæði á fimmtudag og föstudag fyrir Menningarnótt var unnið fram á kvöld við undirbúning og kynningarmál. Á aðfararnótt laugardagsins mættu fyrstu starfsmenn upp úr klukkan tvö um nóttina til að undirbúa götulokanir. Setja þurfti upp fleiri en 350 upplýsingaskilti og yfir 300 keilur alla leið vestast frá Seltjarnarnesi og upp í Grafarvog. Einnig þurfti að loka um 65 gatnamótum.

Á sjálfan hátíðardaginn unnu 50 unglingar, sem eru í sumarstarfi, við hreinsun í miðborginni. Klukkan tvö aðfaranótt sunnudagsins mættu starfsmenn sem tóku niður götulokanir og unnu fram eftir nóttu. Klukkan fimm á sunnudagsmorgun kom svo hreinsunarflokkur til að hreinsa upp eftir gleðina og var unnið fram eftir degi.

Reykjavíkurborg vill koma þökkum til allra þeirra sem komu að undirbúningi Menningarnætur með einum eða öðrum hætti. Afmælisveislan tókst með eindæmum vel og gestum þakkað fyrir komuna.