Metmalbikun í Reykjavík 2017

Framkvæmdir Samgöngur

""

Malbikað var fyrir tæpar 1.300 milljónir króna í Reykjavík á síðasta ári. Fyrir það fengust 30 kílómetrar af malbiki sem er um 7,1% af heildarlengd gatnakerfisins. Líklega eru þetta mestu malbiksframkvæmdir í sögu borgarinnar á einu ári eins og sést á súluritinu.

Malbikað var fyrir tæpar 1.300 milljónir króna í Reykjavík á síðasta ári. Fyrir það fengust 30 kílómetrar af malbiki sem er um 7,1% af heildarlengd gatnakerfisins. Líklega eru þetta mestu malbiksframkvæmdir í sögu borgarinnar á einu ári eins og sést á súluritinu.

Þessar miklu malbiksframkvæmdir núna eru til að bæta úr brýnni þörf en heildarúttekt á malbikunarþörf var unnin á vegum borgarinnar og gerð áætlun til fimm ára um nauðsynlegar framkvæmdir. Þörfin var uppsöfnuð vegna sparnaðar fyrstu árin eftir hrun, og aukinnar umferðar. Verkefnið er hluti af átaki sem Reykjavíkurborg, Vegagerðin og Garðabær tóku höndum saman um í upphafi síðasta árs, að frumkvæði borgarstjóra.

Í ár voru alls malbikaðir 226.821 fermetrar eða 30 km í borginni í öllum hverfum hennar eins og sést á myndinni og yfirlitinu sem fylgir. Lagt var nýtt malbik á fyrir rúmar 1.100 milljónir króna og gert við götur fyrir tæpar 200 milljónir króna.

„Þetta er mikilvæg innviðauppbygging í borginni og nauðsynleg til að halda gatnakerfinu við. Verkefnið heldur áfram á þessu ári þegar enn fleiri götur verða teknar fyrir í samræmi við ástandsmat og þá forgangsröð sem unnin hefur verið,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Í ár er stefnt að því að malbika enn meira í borginni eða fyrir 1.740 milljónir króna. Alls verða malbikaðir 43 kílómetrar af götum borgarinnar á þessu ári.  Þegar þrjú ár eru tekin saman, 2016 – 2018 er kostnaður við malbiksframkvæmdir 3.740 milljónir króna og kílómetrarnir verða alls 90 með þeim sem verða malbikaðir í sumar. Í samanburði er eins og Reykjavíkurborg hafi malbikað þjóðveg eitt til Hellu en vegalengdin þangað frá Reykjavík eru tæpir 91 km.

Sjá lista yfir allar götur sem malbikaðar voru 2017 eftir hverfum