Mesta uppbyggingarskeið Reykjavíkur heldur áfram

Loftmynd af húsum í Reykjavík. Arctic Images/Ragnar Th.
Loftmynd af húsum í Reykjavík við Nóatún

Mesta uppbyggingarskeið borgarinnar heldur áfram en á síðasta ári voru samþykkt byggingaráform fyrir 1.285 nýjar íbúðir í Reykjavík, samkvæmt samanteknum tölum frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík. Ársskýrsla byggingarfulltrúa var kynnt fyrir skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar í dag.

Íbúðirnar skiptast þannig að langstærstur hluti eða 1.219 er í fjölbýlishúsum eða 95%, 41 í raðhúsum, 14 í tvíbýlishúsum og 15 í einbýlishúsum. Til samanburðar voru 1.074 nýjar íbúðir samþykktar í árið 2020 og er því um 20% fjölgun á milli ára. 

Á árinu 2021 hófst bygging á 1.065 nýjum íbúðum sem skiptast þannig að 993 voru í fjölbýli, 40 í raðhúsum, 12 í tvíbýli og 20 í einbýli. Tölurnar eru byggðar á útgefnum byggingarleyfum.

Þróunin sést vel í meðfylgjandi yfirliti yfir byggingu nýrra íbúða frá árinu 1972.

Aldrei skráðar fleiri fullgerðar íbúðir

Þegar skoðað er yfirlit frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík yfir byggingu nýrra íbúða frá árinu 1972 kemur í ljós að aldrei hafa verið skráðar fleiri fullgerðar íbúðir en síðustu ár.

Á þessu tímabili hefur fjöldi fullgerðra íbúða aðeins fjórum sinnum farið yfir þúsund og þar af yfir þrjú síðustu ár með samtals 3.827 íbúðir skráðar. Árið 2021 voru þær 1.252, árið 2020 sem var metár var fjöldinn 1.572, árið 2019 voru 1.003 og 1986 með 1.026 íbúðir. Meðaltal áranna 1972-2021 er 607 fullgerðar íbúðir á ári þannig að árið 2021 er meira en tvöfalt meðalár.

Ársskýrsla byggingarfulltrúa – helstu staðreyndir

  • Á árinu 2021 voru samþykkt byggingaráform í Reykjavík fyrir um 223 þúsund fermetra og 805 þúsund rúmmetra fyrir allt húsnæði. Hlutdeild íbúðarhúsnæðis var fyrir um 163 þúsund fermetra eða 73% af heild.
  • Samtals hófst bygging á 1.065 íbúðum árið 2021. Að meðaltali frá 1972 hefur bygging hafist á 655 íbúðum á ári. Samtals hefur bygging hafist á 7.273 nýjum íbúðum sl. sjö ár og er það mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík.
  • Frá árinu 2000 hefur samþykkt byggingarmagn á ári verið að meðaltali fyrir um 209 þúsund fermetra og 923 þúsund rúmmetra.
  • Mesta byggingarmagn í fermetrum var samþykkt árið 2018 eða fyrir um 396 þúsund fermetra fyrir allt húsnæði en einungis 18 þúsund fermetrar árið 2010.
  • Samþykktar voru 1.285 nýjar íbúðir í byggingaráformum árið 2021 og flestar voru í fjölbýlishúsum eða 95%. Til samanburðar voru 1.074 nýjar íbúðir samþykktar árið 2020, 945 árið 2019 og 1.881 íbúðir árið 2018 sem var metár og 1.024 árið 2017.
  • Önnur ár voru þær undir þúsund og 737 árið 2016, 969 árið 2015, 562 árið 2014, 441 árið 2013, 444 árið 2012, 114 árið 2011, 27 árið 2010, 125 árið 2009, 490 árið 2008, 427 árið 2007 og 573 íbúðir skráðar 2006.
  • Mesta samdráttarskeið í byggingu nýrra íbúða var yfir árin 2009 til 2011 þar sem hafin var smíði á samtals 282 íbúðum yfir tímabilið og einungis 10 íbúðum árið 2010.
  • Í Fasteignaskrá voru 1.252 nýjar íbúðir skráðar fullgerðar og teknar í notkun á árinu 2021.

Tenglar

Yfirlit yfir byggingu nýrra íbúða frá 1972 - tafla

Hafin bygging á nýjum íbúðum frá árinu 1972 - súlurit

Ársskýrsla byggingarfulltrúa

Ársskýrsla 2021 - kynning

 

 

 

Tölur