Meiri stuðningur við börn sem sækja um alþjóðlega vernd | Reykjavíkurborg

Meiri stuðningur við börn sem sækja um alþjóðlega vernd

fimmtudagur, 25. janúar 2018

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum 24. janúar að auka stuðning við skóla og frístundamiðstöðvar vegna móttöku og aðlögun barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.

  • Lesið í Austurbæjarskóla
    Lesið í Austurbæjarskóla

Sérstaklega verður litið til aðstæðna barna úr hópi flóttafólks og hælisleitenda þar sem skólaganga þeirra hefur verið rofin eða takmörkuð og þau glíma við áfallastreitu, kvíða eða vanlíðan.

Settur verður á fót starfshópur sem á að setja fram tillögur um verklag við móttöku þessara barna í skóla- og frístundastarfinu með hliðsjón af fyrirmyndum í nágrannalöndunum. Þá á starfshópurinn að skoða sérstaklega hvaða próf eða matstæki megi nýta til að meta stöðu þessara barna við upphaf skólagöngu með tilliti til móðurmálskunnáttu, námsstöðu, heilsufars og velferðar svo stuðla megi að því að skólaganga þeirra verði sem farsælust. Jafnframt verður farið yfir áætlanir um móttöku barna af erlendum uppruna í skóla- og frístundastarfið og útbúnir gátlistar sem byggja á nýju verklagi.