Meira líf í hverfiskjarna í Breiðholti

Atvinnumál Framkvæmdir

""

Hugmyndaleit um starfsemi til bráðabirgða í húsnæði í tveimur hverfiskjörnum í Breiðholti,  Arnarbakka 2-6 og Völvufelli 11-21 er lokið og bárust 26 erindi. Þar af voru 11 frá aðilum sem sækja  um húsnæði undir ákveðna starfsemi og 15 voru hugmyndir, tillögur og ábendingar varðandi verkefnið og svæðið almennt.

Starfshópur, sem meðal annars var skipaður fulltrúum íbúa, mat umsóknirnar og taldi eftirtaldar áhugaverðastar:

  • Karlar í skúrum – Rauði krossinn
  • Smíðastofa fyrir einhverfa karla – Velferðarsvið Reykjavíkurborgar
  • Verkstæði og kennslurými – áhugahópur kennara og handverksmanna
  • Hjólafærni og Hjólakraftur
  • Vegglistasamsteypan
  • Stelpur Rokka
  • Lærdómsmiðstöð í ræktun plantna – Seljagarður
  • Upptökuver
  • Bardagaíþróttir – Íþróttafélag Reykjavíkur

Niðurstöður hugmyndaleitarinnar voru í liðinni viku kynntar fyrir borgarráði, sem heimilaði viðræður við þessa hópa um tímabundna leigu á því húsnæði sem Reykjavíkurborg keypti og fær afhent á þessu ári. Þegar samningar um tímabundna leigu liggja fyrir, sem  og kostnaðarmat á framkvæmdum sem þarf að fara í vegna þeirra verður málið að nýju lagt fyrir borgarráð.

Hluti af stærri heildarmynd   

Kaup Reykjavíkurborgar á fasteignunum í þessum tveimur hverfiskjörnum er hluti af stærri heildarmynd og framtíðarsýn. Reykjavíkurborg vill stuðla að uppbyggingu á þessum svæðum, betri nýtingu og bættri ásýnd.  Í hverfisskipulagi sem er í vinnslu fyrir Breiðholt koma fram hugmyndir að auknum byggingarheimildum á þessum lóðum og möguleikum á breyttri notkun.  Þeim tillögum sem bárust í hugmyndaleitinni og lúta að almennri uppbyggingu er vísað til vinnu við nýtt skipulag svæðanna, sem hafin er hjá embætti skipulagsfulltrúa.

Tengt efni: