Markmiðið að 70% Reykvíkinga hreyfi sig reglulega

Íþróttir og útivist

""

Ný stefna í íþróttamálum Reykjavíkur til ársins 2030 var samþykkt í borgarstjórn í dag. Um er að ræða metnaðarfulla áætlun sem er búin að vera í vinnslu í rúmt ár í nánu samstarfi borgaryfirvalda og íþróttahreyfingarinnar í borginni.

Í áætluninni eru nokkrar stefnuáherslur sem mynda umgjörð um áætlunina í heild sinni:

  •  Að minnst 70% Reykvíkinga hreyfi sig rösklega í 30 mín þrisvar í viku
  •  Að minnst 70% barna og unglinga stundi íþróttir og hreyfingu í skipulegu starfi
  •  Að meirihluti íslenskra þátttakenda á stórmótum komi frá reykvískum félögum
  •  Að minnst 40% félaga í efstu deildum hópíþrótta verði reykvísk
  •  Að tímanýting íþróttahúsa á tímanum 8-22 á virkum dögum verði minnst 70%
  •  Að minnst 90% íþróttafélaga sem eru með barna og unglingastarf séu fyrirmyndafélög ÍSÍ

 

Íþróttaaðstaða fyrir alla

Tryggja þarf að við uppbyggingu íþróttamannvirkja og við endurgerð eða endurbætur þeirra sé hugmyndafræði algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi svo tryggt sé að aðgengi sé fyrir alla að mannvirkjunum. Skýr forgangsröðun verði í uppbyggingu mannvirkja. Stutt verði við aukna þátttöku aldraðra og gætt að því að aðstaða í mannvirkjum og á grænum svæðum geti nýst þeim til hreyfingar og íþróttaiðkunnar.

Börn og fjölskyldur

Öll börn og unglingar eiga að hafa tækifæri til að þroskast og eflast í fjölbreyttu og aðgengilegu íþróttastarfi. Huga þarf sérstaklega að stuðningi við börn efnaminni foreldra og tryggja fræðslu til þjálfara til að mæta stuðningsþörfum ólíkra barna. Fötluð börn njóti sérstaks stuðnings og fái sömu tækifæri og önnur börn til að stunda skipulagðar íþróttir. Tryggt verði að transbörn geti stundað íþróttir til jafns við önnur börn.

Til að tryggja gott framboð íþróttagreina í hverju hverfi þarf jafnframt að auka framboð íþrótta í ákveðnum hverfum borgarinnar. Svo takmarkaður tími foreldra nýtist sem best er æskilegt að foreldrar hafi tækifæri á að nýta þann tíma sem börnin verja til æfinga.

Íþróttafélögin

Áætlunin gerir ráð fyrir aukinni samvinnu milli íþróttafélaga því þegar innviðum, þekkingu íþróttafélaga á íþróttum og lýðheilsumarkmiðum er fléttað saman getur slíkt aukið þátttöku almennings og skilað íþróttafélögum ávinningi.

Til að íþróttafélögin geti vaxið og dafnað, er nauðsynlegt að rekstrarumgjörð þeirra sé skýr. Þau þurfa að gæta aðhalds í rekstri sínum en jafnframt þarf að tryggja þeim rekstrargrundvöll til að uppfylla faglegar kröfur sem gera verður til grunnstarfsemi þeirra.

Gerð er krafa um að öll félög verði með virkar siðareglur, eineltis- og jafnréttisáætlanir, sem og áætlanir um viðbrögð við hvers kyns ofbeldi.

Stefna í íþróttamálum Reykjavíkur til 2030