Margt má gera sér til gamans í vetrarfríinu

Börn skemmta sér í Sjóminjasafni

Vetrarfrí er í grunnskólum borgarinnar dagana 17.–20. febrúar. Frístundamiðstöðvar og menningarstofnanir borgarinnar bjóða upp á fjölbreytta dagskrá og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ókeypis er inn á söfn fyrir fullorðna í fylgd með börnum og frítt verður í sund á tilgreindum tímum.

Vetrarfrí 17.-20. febrúar

Á frístundamiðstöðvum borgarinnar verður í vetrarfríinu leikið, föndrað, klifrað og grillað og í Bláfjöllum verða diskalyfturnar í gangi. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn býður líka upp á skemmtilega dagskrá með Lalla töframanni og margs konar fræðslu.

Fjölbreytt dagskrá verður í öllum bókasöfnum borgarinnar í vetrarfríinu þar sem gert er ráð fyrir afþreyingu fyrir börn sem fullorðna, s.s. ýmsar ráðgátur, smiðjur, bingó og myndbandagerð.  

Borgarsögusafn er líka með skemmtilega og endurgjaldslausa dagskrá í vetrarfríi fyrir unga sem aldna. Á Sjóminjasafninu verður boðið upp á Plöntuleikhús og margs konar þrautir, á Landsnámssýningunni í Aðalstræti verða húsdýr landnemanna í brennidepli í ýmsum leikjum, á Árbæjarsafni má búa til vind-óróa Góu til dýrðar og Ljósmyndasafnið býður upp á skemmtilega fjölskylduþraut í tengslum við sýninguna Augnablik af handahófi.  

Prent og vinir á Kjarvalsstöðum!

Í Listasafni Reykjavíkur og á Kjarvalsstöðum verða sköpunarsmiðjur í boði og skemmtilegar sýningar sem skoða má endurgjaldslaust og með leiðsögn fyrir alla fjölskylduna. Og ef einhvern skyldi langa til að prófa að búa til prentgrip þá bjóða Prent og vinir upp á skemmtilegt prentnámskeið fyrir börn á Kjarvalsstöðum í tengslum við sýningu Birgis Andréssonar.

Kynntu þér dagskrá frístundamiðstöðva, safna og menningarstofnana í vetrarfríinu og njóttu þess að leika þér með allri fjölskyldunni.