Margrét Lóa Jónsdóttir hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2024

Margrét Lóa Jónsdóttir, verðlaunahafi ásamt Pawel Bartoszek og dómnefndinni. F.v. Védís Ragnheiðardóttir, Pawel Bartoszek, Margrét Lóa Jónsdóttir, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason formaður og Þórdís Gísladóttir
Margrét Lóa Jónsdóttir, verðlaunahafi ásamt Pawel Bartoszek og dómnefndinni. F.v. Védís Ragnheiðardóttir, Pawel Bartoszek, Margrét Lóa Jónsdóttir, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason formaður og Þórdís Gísladóttir

Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi, veitti Margréti Lóu Jónsdóttur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í dag, fimmtudaginn 17. október 2024, við hátíðlega athöfn í Ásmundarsafni. Hún hlýtur verðlaunin fyrir ljóðahandritið Pólstjarnan fylgir okkur heim. Salka útgáfa gefur út. 

Alls bárust 38 óbirt ljóðahandrit í samkeppnina í ár. Handrit eru send inn undir dulnefni og aðeins var umslag með réttu nafni verðlaunahöfundar opnað. Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með verðlaununum sem hafa verið veitt frá árinu 1994 en árið 2004 var tekin upp sú nýbreytni að veita eingöngu verðlaun fyrir ljóðahandrit. Verðlaunin nema einni milljón króna.

Pawel sagði við verðlaunaafhendinguna að Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar væru ein helsta menningarviðurkenning Reykjavíkurborgar og Margrét Lóa væri vel að þeim komin. „Ljóðið er fjarri því að vera bundið við bækur því í september síðastliðnum var opnaður Freyjugarður við Freyjugötu í Þingholtunum, sem er rósum prýddur garður tileinkaður ljóðum íslenskra skáldkvenna sem ég hvet ykkur öll til að fara og upplifa“ sagði Pawel. 

Margrét Lóa Jónsdóttir, verðlaunahafi.
Margrét Lóa Jónsdóttir, verðlaunahafi Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar 2024

Margrét Lóa Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 1967. Fyrsta ljóðabók hennar, Glerúlfar, kom út haustið 1985. Síðan þá hefur Margrét gefið út 11 ljóðabækur, skáldsögu og ljóðaúrval sitt á hljómdiski ásamt tónlistarmanninum Gímaldin. 12. ljóðabók hennar, Pólstjarnan fylgir okkur heim, er gefin út hjá bókaforlaginu Sölku. Hún hefur kennt skapandi skrif og íslensku og fengist við ljóðaþýðingar, aðallega úr spænsku og starfrækt listagalleríið Marló og bókaútgáfu með sama nafni. Margrét Lóa hefur hlotið viðurkenningar frá Bókasafnssjóði og frá Fjölíssjóði Rithöfundasambands Íslands fyrir ritstörf.

Í dómnefnd sátu: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason formaður, Þórdís Gísladóttir og Védís Ragnheiðardóttir.

Umsögn dómnefndar:

Ljóðmælandi situr á útikaffihúsi og hugsar um lífið og tilveruna. Minningar leita á hana; minningar um látna ástvini, ljúfsár augnablik úr æsku og ferðalög á fjarlægar slóðir. Úr þessum minningum verður til ljóðrænt vitundarstreymi sem er í senn kjarnyrt og margrætt. Pólstjarnan fylgir okkur heim er vandað og vel uppbyggt handrit með skýrum boga. Um er að ræða samfellda frásögn sem skiptist í mörg stutt, ónefnd ljóð sem saman mynda samhljóm er minnir á sinfóníu eða óhlutbundið kvikmyndaverk. Ljóðmálið er tært og grípandi og í gegnum handritið má finna magnaðar ljóðmyndir sem sitja lengi í huga lesanda að lestri loknum. Höfundur fetar fimlega einstigið á milli hins pólitíska og persónulega, án þess þó að vera prédikandi og þrátt fyrir að hér sé ort um flóttafólk, stríð og dauða þá liggur í gegnum handritið þráður vonar sem er ekki bara viðeigandi fyrir þá tíma sem við lifum, heldur ef til vill nauðsynlegur. Táknmynd handritsins er Pólstjarnan, leiðarstjarnan sem í aldanna rás hefur vísað mannkyninu veginn um ókunn höf og lönd. Á sama hátt og Pólstjarnan vísaði sæförum veginn á öldum áður, vísar hún lesendum veginn í gegnum handrit sem við fyrstu sýn virðist ólínulegt en er þó jafn víðáttumikið og kunnuglegt og stjörnuhimininn. Pólstjarnan fylgir okkur heim er magnaður ljóðaseiður um lífið, dauðann, tímann innra með okkur og veraldarundrið vonina.

Til hamingju með Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar Margrét Lóa Jónsdóttir!