Málþroski fjöltyngdra barna á Ösp í fyrirrúmi

Skóli og frístund

Bókakarfa notuð við verkefnið málþroski og læsi í leikskólanum Ösp

Leikskólinn Ösp býr yfir ríkri fjölmenningu og líklega fáir leikskólar með jafn mörg tungumál í barnahópnum. Yfir 90 prósent barnanna hafa annað móðurmál og tungumálin eru um 20 talsins.

Yfir 90 prósent barnanna eru fjöltyngd

„Það eru jafnvel börn með fjögur tungumál sem þurfa að sameinast í einu og þá höfum við talað um íslenskuna sem leikskólamál. Þar af leiðandi er foreldrahópurinn líka fjölmenningarlegur og það er starfsmannahópurinn minn líka. Í fyrra gerðist það að öll börnin sem byrjuðu í leikskólanum voru fjöltyngd þannig að heil deild varð alveg fjöltyngd,“ segir Halldóra Sigtryggsdóttir leikskólastjóri eða Dóra eins og hún er alltaf kölluð.

Áhersla á að styrkja orðaforðann
Í Fellahverfi þar sem er mikil fjölmenning hefur undanfarin ár verið unnið markvisst með íslenskuna til að styrkja orðaforða barnanna og auka möguleika þeirra til virkar þátttöku í samfélaginu. Fyrir tveimur árum var farið af stað með verkefni um málþroska og læsi sem Fellaskóli og leikskólarnir Holt og Ösp taka þátt í. Verkefnið snýst um hópastarf þar sem allir bera ábyrgð og til að styrkja starfsfólkið á Ösp hafa fimm farið á menntafléttunámskeið í máli og söng. „Við vinnum mikið með orðaforðaþemu og leggjum áherslu á orðaforða sem við teljum mikilvægan,“ segir Dóra. Hópstjóri er á hverri deild og hvert þema stendur í tvær vikur með áherslu á sköpun, málörvun og frjálsan leik. Bókalestur hafa aukist til muna á Ösp og á einni deildinni hafa þau unnið með svokallaðan bókaorm. „Börnin koma með bækur sem lesnar eru fyrir þau heima á þeirra máli, svo koma börnin með bækurnar og segja frá þeim. Þannig að þó að við getum ekki lesið bókina því við skiljum ekki tungumálið að þá er barnið búið að heyra hana lesna heima og getur sagt frá henni. Les myndirnar og segir okkur hinum frá,“ segir Dóra.

Bera virðingu fyrir bakgrunni barnanna og tungumáli
Það er ekki að ástæðulausu sem farið var í að leggja sérstaka áherslu á íslenskuna og að auka orðaforða barnanna. Raunin hefur verið sú að skilningur marga barna sem eru aðeins í íslensku málumhverfi í skólanum er oft ekki nógu góður. Því var ákveðið að byrja strax í leikskóla að byggja upp orðaforða þeirra. „Við aukum virkan orðaforða barnanna og gefum þeim aukin tækifæri á að vera virkir þátttakendur bæði í leikskóla og síðan í grunnskólalífinu. Við teljum það skipta mjög miklu máli. Þau eru í íslensku skólaumhverfi en á móti kemur að það skiptir máli að við berum virðingu fyrir þeirra heimamálum og að við vinnum bæði með foreldrum og börnunum í málstefnunni.“

Foreldrarnir treysta á leikskólann
Dóra segir foreldra taka mjög vel í málstefnuna og þá áherslu sem lögð er á íslenskuna. Foreldrarnir treysti á leikskólann og hafi reglulega samband til að athuga hvernig gangi. Hún segir bæði skemmtilegt og gefandi að vinna með börnunum og hafa áhrif á þessa mikilvægu hæfni þeirra. „Í starfsmannahópnum ríkir mikil gleði og við erum öll á sömu blaðsíðu. Áherslan á íslenskuna þýðir ekki að börn sem tala sama heimamál geti ekki talað saman á því tungumáli, heldur þurfa allir að skipta yfir í íslenskuna þegar einhver bætist í hópinn sem ekki skilur, þá þarf að skipta í leikskólamálið svo allir geti verið með.“

Starfsdagar nýttir í þjálfun
„Fyrir okkur er líka ríkt að hafa starfsmenn sem tala önnur tungumál þó að við séum ekki með starfsmannahóp sem talar öll tungumál barnanna,“ segir Dóra og bætir við að starfsfólkið á leikskólanum njóti þess að taka þátt í því faglega starfi sem fram fer í leikskólanum. Starfsdagar eru nýttir í þjálfun og nýlega var einn slíkur nýttur til þess að fara til Egilsstaða þar sem boðið var upp á námskeið um læsi og sköpun. „Þar var grunnurinn tekinn; byrjendalæsi, samskiptalæsi og tilfinningalæsi, því allt fléttast þetta jú saman. Menntaflétturnar hafa líka eflt fólk gríðarlega í sínu starfi, það er svo mikilvægt að hafa grunn og skilning. Við höfum líka unnið með verkfærakistu frá Kvan, þannig að við höfum lagt mikla áherslu á félagsfærni og samskipti. Það er rosalega erfitt fyrir barn að geta ekki sagt hvernig því líður eða hvað það er sem það vill,“ segir Dóra en það gerist einmitt frekar þegar vantar upp á orðaforðann.